Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 12:02:52 (2164)

2001-11-29 12:02:52# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mikið kannast ég vel við minn gamla vin, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Nú held ég að hann sé farinn að finna sjálfan sig aftur. Þetta minnir mig dálítið á þá daga þegar hv. þm. eyddi allri orku sinni dögum, stundum vikum, saman í það að sarga á talsmönnum annarra flokka um smáatriði í stefnu þeirra (Gripið fram í.) en mundi ekkert eftir því stundum í hvaða flokki hann sjálfur var staddur þá og þá stundina. Muna menn eftir því þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson sargaði á talsmönnum Kvennalistans um smáatriðin í sjávarútvegsstefnu þeirra vikum saman? Eða hvernig hv. þm. lék þetta sama gagnvart fyrrv. heilbrrh., Ingibjörgu Pálmadóttur? Nú kemur hv. þm. og eyðir mikilli orku í að hann vill fá nákvæmar útlistanir á því hvernig hæstv. utanrrh. réttlætti það fyrir samvisku sinni að sitja hjá við EES-samninginn á sínum tíma eða hver séu smáatriðin í þessu með mögulegan tvíhliða samning við Evrópusambandið af hálfu okkar talsmanna Vinstri grænna?

Hv. þm. frestaði sjálfur að mestu leyti Evrópuræðu sinni sökum tímaskorts og getur þá ekki kvartað undan því að aðrir menn hafi ekki komið öllu að í ræðu sinni. Þegar verið er að reyna að ræða öll alþjóðamál, og Evrópumál þar með talin, eru 15 mínútur satt best að segja ekki langur tími.

Ég held að menn eigi ekki að horfa á þessi samskipti við Evrópusambandið, frekar en neitt annað í alþjóðasamskiptum, sem einhverja einangraða atburði í tíma og rúmi og efni. Samskipti Íslands og Evrópusambandsins hafa verið í þróun. Við höfðum bókun 6. Hvers vegna gekk okkur tiltölulega vel að ná að mestu leyti tollfrelsi á sjávarafurðir okkar í viðræðunum um EES-samninginn? Það var af því að við höfðum bókun 6 og engum datt í hug að menn færu aftur á bak í þeim viðskiptakjörum þannig að bókun 6 þróaðist inn í bókun 9 og fól í sér vissa útvíkkun en í grunninn var tollfrelsi á mjög mikilvægum afurðum til staðar. Við sjáum þetta fyrir okkur með sama hætti í framhaldinu sem þróun inn í framtíðina.