Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 12:05:15 (2165)

2001-11-29 12:05:15# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans um utanríkismál þar sem drepið var á flest þau mál sem að okkur steðja á þeim vettvangi, að sjálfsögðu í stuttu máli eins og svona umræða gefur tilefni til. Á síðustu 12 árum hafa orðið tveir heimsviðburðir sem hafa markað þáttaskil í alþjóðlegum stjórnmálum. Annars vegar er það hrun Sovétríkjanna og endurheimt sjálfstæðis fjölmargra ríkja Mið- og Austur-Evrópu ásamt þróun lýðræðis og markaðsbúskapar í þessum heimshluta. Sú þróun sýndi svo ekki varð um villst hve sterkur kjarni menningarlegs sjálfstæðis lifði af ofsóknir kommúnismans og hve djúpum rótum lýðræðishugsjónin stóð í raun. Hún sýndi einnig hve mikilvægt varnarsamstarf vestrænna þjóða var, ekki aðeins sem máttugra varnarsamtaka heldur og hve sterkt tákn um frelsi og lýðræði þessi samstök voru í augum hinna kúguðu þjóða austan járntjaldsins. Í hruni Sovétríkjanna birtist því ekki aðeins veikleiki miðstýrðrar hugmyndafræði og flokksalræðis heldur reis lýðræðishugsjónin sem sigurvegari í pólitískum átökum sem staðið höfðu í 70 ár. Atburðarásin sem hófst 1989 og enn er ekki lokið var því mikill sigur fyrir lýðræði, þjóðfrelsi og þjóðmenningu í heiminum.

Herra forseti. Atburðirnir sem gerðust 11. september sl. voru hins vegar ekki aðeins hatrömm og mannskæð árás á Bandaríki Norður-Ameríku. Árásinni var beint að grundvallarþáttum vestræns lýðræðis. Skotmörk hryðjuverkamannanna voru saklausir borgarar. Flugvélum í farþegaflugi, sjálfu tákni ferðafrelsis og samskipta, var breytt í tortímingarvopn og þeim beitt gegn miðstöð viðskiptafrelsis og varnarkerfis þeirrar þjóðar, Bandaríkjanna, sem mest hefur lagt af mörkum til að tryggja varnir og öryggi vestrænna þjóða. Allt var gert til að tryggja að sem flestir óbreyttir borgarar féllu í þessu tilræði. Hér var því um að ræða aðför að öllum helstu gildum og verðmætum sem hafin hafa verið til vegs og virðingar af vestrænum lýðræðisþjóðum og hlotið hafa ótrúlega mikinn framgang og styrk á síðustu öld. Þessi aðför var þeim mun alvarlegri sem óvinurinn gaf sig ekki fram, hann athafnar sig neðan jarðar og nýtir sér alla þá farvegi sem frelsi og lýðræði hafa búið þegnum sínum.

Herra forseti. Þótt viðbrögð við þessum atburðum hafi öll verið á einn veg til að byrja með og öllum hafi af eins konar eðlisávísun orðið ljóst hve djúpstæð forherðing og mannhatur hafi búið að baki þessum glæp hefur fljótt komið í ljós hér og þar tilhneiging til að líta á þessa árás sem einhvers konar lið í pólitískum deilumálum í Miðausturlöndum eða framlag til þeirra deilna, að ekki sé talað um þá sem vilja telja árásina á Bandaríkin þátt í mannréttindabaráttu Palestínumanna og baráttu fyrir auknu lýðfrelsi á Persaflóasvæðinu. Að hefja hryðjuverkamenn þannig á stall með því að telja þá með einhverjum hætti aðila máls og viðræðuhæfa sem slíka er með öllu afvegaleidd hugmyndafræði og siðlaust viðhorf. Alræðisstjórnir og hryðjuverkasamtök fremja glæpi til að viðhalda sjálfum sér.

Þeir ótrúlegu glæpir sem framdir voru í Sovétríkjunum í nafni alþýðu og öreigastéttar beindust gegn réttlæti, lýðræði, jöfnuði og bræðralagi. Það kom ekki í veg fyrir að sífellt voru til einstaklingar og pólitísk samtök sem sáu sóma sinn í því að gera Sovétríkin að viðræðuhæfum talsmönnum friðar, lýðræðis og jafnréttis. Sömu aðilar settu sig aldrei úr færi að veikja tiltrú á lýðræðisríkin og varnarsamtök þeirra.

Hryðjuverk eru ekki ný af nálinni. Samtök hryðjuverkamanna áttu lengi athvarf í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra. Þau áttu skjól og heimahöfn í Líbíu og Írak og fleiri Austurlöndum. Engin þeirra afla sem hýstu samtök af þessu tagi standa fyrir öðru en einræði og ofbeldi.

Megintilgangur hryðjuverkasamtaka er að viðhalda því ástandi sem þau þrífast best í. Þar með er með öllu óásættanlegt að umræðan um þá nýju ógn sem heiminum stendur af hryðjuverkastarfsemi sé afvegaleidd með þeim hætti að tengja lausn hennar staðbundnum pólitískum deilumálum. Slík deilumál eru sérstök úrlausnarefni. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi er einnig sérstakt úrlausnarefni sem kallar á alþjóðlega samvinnu sem nú þegar er hafin.

Meðal þeirra afleiðinga sem árásin á Bandaríkin hefur haft er nánara samstarf Bandaríkjamanna og annarra NATO-ríkja við Rússland. Það samstarf var þegar hafið innan friðarsamstarfsins. Eflaust verða þessar nýju aðstæður tilefni til þess að efla verulega þetta samstarf og þar eru tvímælalaust athyglisverðir möguleikar á að þróa nánara samstarf við Rússa en verið hefur. Slíkt aukið samstarf verður til þess að styrkja öryggi Evrópu svo fremi sem þess er gætt að standa vörð um hlutverk Atlantshafsbandalagsins og hagsmuni þess sem varnarbandalags og draga ekki á nokkurn hátt úr sjálfstæði þess.

Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum hefur óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum aukist og dregið hefur úr líkum á að helstu efnahagskerfi heimsins nái sér á strik. Það vakti athygli mína að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat þess í máli sínu að erfiðleikar í íslensku efnahagslífi eigi sér á engan hátt skýringar erlendis. Þetta er mjög athyglisverð skoðun og mjög sérkennileg ef þetta er skoðun Samfylkingarinnar í heild. Ef við lítum á þá staðreynd að Ísland er í sjötta sæti á lista yfir þær þjóðir sem mest eru háðar milliríkjaviðskiptum, og það er almennt viðurkennt að atburðirnir í Bandaríkjunum 11. september hafi haft gífurlega mikil áhrif á efnahagsmál heimsins og útlit fyrir þróun þeirra, má heita sérkennileg bíræfni að halda því fram að þetta muni ekki hafa nein áhrif á Ísland.

Það er augljóst mál að þessir atburðir munu hafa djúpstæð áhrif á íslenskt efnahagslíf svo háð sem við erum milliríkjaviðskiptum. Við erum háð milliríkjaviðskiptum og við erum háð kaupmætti í viðskiptalöndum okkar og það er ljóst að þessi þróun mun ekki auðvelda íslenskum stjórnvöldum að tryggja hér stöðugleika. Að tala um íslensk efnahagsmál eins og þau séu einangruð frá alþjóðlegum viðskiptamálum er furðuleg afstaða og í raun og veru undarlegt að formaður Samfylkingarinnar skuli leyfa sér að halda því fram í ræðustól á Alþingi.

Við þessar aðstæður hefur umræða um efnahagsmál magnast hér á landi og sérstaklega um gengi íslensku krónunnar sem er með nokkuð sérstökum hætti og á köflum afar óábyrg umræða. Að hluta til tengist þessi óábyrga umræða áhuga á að tengjast Evrópusambandinu og evrusvæðinu sérstaklega og er þar með hluti af utanríkismálaumræðunni. Umræðan hefur magnast nú þegar sú breyting verður á að sérstakir seðlar og mynt evrunnar verða tekin upp um næstu áramót. Evran hefur að sjálfsögðu verið í fullu gildi sem greiðslueining í tvö ár og gengi gjaldmiðla þeirra landa sem eru aðilar að evrusvæðinu hefur verið bundið evrunni frá upphafi árs 1999. Það er full ástæða til að víkja örlítið að þessum þætti efnahags- og utanríkismála við þessa umræðu.

Þegar litið er til hinna hefðbundnu undirliggjandi efnahagsþátta er ljóst að allar forsendur eru fyrir því að gengi íslensku krónunnar styrkist. Nú dregur hratt úr innflutningi, útflutningur eflist og atvinnulífið greiðir niður skuldir sínar. Hið opinbera hefur einnig lækkað skuldir sínar verulega. Allt á þetta að verka til þess að styrkja stöðu krónunnar á markaði. Það er hins vegar staðreynd að frjálst flæði fjármagns sem við búum hér við nú opnar ýmsum öðrum þáttum en hinum hefðbundnu undirliggjandi þáttum leiðir að stöðu gengisins. Væntingar og spákaupmennska geta haft veruleg áhrif. Óábyrgt hjal um vaxandi veikleika gjaldeyrisins getur einnig haft skaðleg áhrif á frjálsum markaði gjaldeyrisviðskipta. Það er með þetta í huga sem ber að skoða hina sérkennilegu umræðu um að íslenska krónan sé gallaður gjaldmiðill ef ekki ónýtur.

Því er ítrekað haldið fram að vegna þess að krónan hefur lagað sig að íslenskum efnahagsaðstæðum og sigið talsvert beri að stefna að því að athuga hvort ekki sé rétt að taka upp evruna í hennar stað. Ljóst er að það eru ekki aðrir en áhugamenn um að ganga í Evrópusambandið sem stunda málflutning af þessu tagi. Enginn stjórnmálaflokkur þorir í raun að setja inngöngu í ESB á oddinn en hins vegar eru margir stjórnmálamenn reiðubúnir til að hætta ýmsu til til að sannfæra almenning um að ekki séu aðrar leiðir færar en að falla í þann faðm. Á meðan þeir þora ekki að mæla opinskátt með inngöngu eru þeir reiðubúnir til að grafa undan gengi íslensku krónunnar með óábyrgu tali um að hún sé ónýt og ekkert geti styrkt stöðu okkar annað en aðild að evrunni. Svo er því sleppt að aðild að evrunni gengur ekki nema aðild að Evrópusambandinu sé þegar komin. Þetta er þeim mun sérkennilegri málflutningur sem það er einmitt nú á þessum tímum sem það sýnir sig hvers virði það er fyrir þjóðina að hafa eigin gjaldmiðil sem hægt er að laga að þróun efnahagslífsins.

[12:15]

Ljóst er að þótt tekist hafi að tryggja hér á landi mesta hagvaxtartímabil sem um getur í sögu lýðveldisins þá hefur þensla orðið meiri en efnahagsforsendur eru fyrir. Óhjákvæmilegt er að kaupmáttur krónunnar lagi sig að efnahagsumhverfinu. Það er þróun sem nú fer fram og hún fer fram á markaðsforsendum. Það er einmitt við slíkar aðstæður sem það verður ljóst hvers virði það er að geta beitt eigin gjaldmiðli til leiðréttinga af þessu tagi.

Menn geta ímyndað sér hver staða okkar hefði orðið innan evrusvæðisins við þær aðstæður sem hér hafa þróast. Evran tekur að sjálfsögðu ekki tillit til staðbundinna vandkvæða í efnahagsmálum, ekki frekar en hún tók tillit til þess þegar Írar stóðu frammi fyrir mikilli verðbólgu á sama tíma og evran var stöðug og viðurkenndu að þeir hefðu ekki nokkur tök á því að bregðast við þeim vanda. Enginn minntist heldur á að evran væri ónýtur gjaldmiðill þó að hún félli um 23--25%. Hún var þó ónýtur gjaldmiðill fyrir Íra sem áttu örlög sín undir því að evran veiktist vegna aðstæðna sem þeir gátu ekki haft nokkur áhrif á. Þróun evrunnar og verðbólga á Írlandi hefur að sjálfsögðu skaðað samkeppnisstöðu Íra. Ljóst er að við núverandi aðstæður hefðu Íslendingar ekki haft af því hag að vera bundnir evrunni. Þvert á móti hefði það leitt til örari verðbólgu og færri úrræði hefðu verið til að bregðast við því.

Meginmálið er að evran slær eftir hjartslætti hinna stærri ríkja í Evrópu en þó fyrst og fremst eftir púlsinum í Þýskalandi. Ísland hefur lengi búið við sveiflur í efnahagslífi þótt ötullega hafi verið að því unnið að jafna þær sveiflur og mikilvægir áfangar hafi tekist í þeim efnum. Við getum hins vegar ekki reiknað með því að íslenskar hreyfingar í efnahagslífinu endurspegli það sem gerist innan evrusvæðisins.

Innleiðing evrunar 1999 og myntin sem tekin verður upp um næstu áramót getur ekki haft annað en góð áhrif á stöðu Íslands. Sú þróun einfaldar viðskipti og afnemur milliliði. Aðild Íslands að myntinni er allt annað mál og mun flóknara. Að nota þá markaðsleiðréttingu sem krónan er að ganga í gegnum nú sem rök fyrir aðild að evrunni er út í hött, á sér engar forsendur og snýr hlutunum á hvolf. Það verður eftir því tekið hverjir stunda slíkan málflutning.

Frjálst flæði fjármagns gerir þær kröfur til allra þeirra sem með stjórn peningamála fara, stjórnmálamanna og viðskiptaaðila að þeir fjalli af varúð og ábyrgð um gjaldmiðilinn og skapi ekki ástæðulausar væntingar um veikingu hans þegar allar aðstæður benda til þess að hann mun styrkjast. Það er einnig versta tegund af utanríkisstefnu sem hugsast getur þegar menn kjósa að nálgast ESB eftir krókaleiðum, þar á meðal með því að grafa undan tiltrú íslensku krónunnar vegna þess að þeir hafa ekki kjark til að segja að þeir óski eftir inngöngu í bandalagið.

Með þetta sérstaklega í huga vil ég minnast þess sem hér kom fram í máli hv. formanns Samfylkingarinnar þegar hann sagði að þeir hefðu skilgreint samningsmarkmið sín varðandi Evrópusambandið. Þeir hafa vissulega gert það en þeir hafa ekki haft manndóm í sér til að lýsa því yfir að flokkurinn hafi áhuga á inngöngu. Um þetta er eitthvað því um líkt að segja að menn hafi skilgreint hvað væri fólgið í því að ferðast til London en hafa ekki haft manndóm í sér að taka ákvörðun um að fara til London. Allar slíkar bollaleggingar eru mjög sérkennilegar, ekki síst vegna þess að ljóst er að við getum ekki orðið aðilar að Evrópusambandinu á næstu árum og Evrópusambandið mun að sjálfsögðu ganga í gegnum ýmiss konar þróunarferli áður en slíkt stendur til boða, en þá er verið að ýja að því án þess að menn geti tekið um það ákvörðun að rétt sé að við eigum að vera þarna innan borðs án þess að menn hafi kjark í sér til þess að taka þá ákvörðun. Þetta er að leika tveimur skjöldum og það er engum stjórnmálasamtökum sæmandi.

Ég mun síðar í máli mínu koma inn á nokkur atriði er fram komu í ágætri ræðu hæstv. utanrrh. og víkja að þeim nánar en ég hef nú tíma til.