Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 14:05:13 (2180)

2001-11-29 14:05:13# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[14:05]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Án jafnréttis, frelsis og virðingar fyrir mannréttindum tryggjum við ekki öryggi fólks og frið í heiminum. Án jafnræðis allra þegna fyrir lögum, hvar sem þeir búa, mál- og skoðanafrelsis, prentfrelsis, þá tryggjum við ekki öryggi og frið í heiminum. Þessi gildi verða að vera grundvöllurinn að framrás lýðræðisins og lýðréttinda, hvort heldur það er hér á Íslandi eða í Afganistan.

Án frelsis kvenna til að stjórna eigin lífi og eignum, án grunnmenntunar barna, telpna og drengja, lágmarksheilsugæslu og aðgangs að hreinu vatni, tryggjum við hvorki öryggi né frið né heldur mun þorri mannkyns eiga möguleika á að lifa lífinu án fátæktar.

Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að örlög okkar á jörðinni eru samofin, allra sem hér búa. Þau eru samofin í mörgu tilliti og ekki bara í öryggismálum. Þau eru einnig þéttofin þeim kjörum sem ríki búa þegnum sínum, með tilliti til ríkidæmis og fátæktar.

Sóknin úr örbirgð til bættra kjara lýsir sé m.a. í miklum fólksflutningum frá suðrinu til norðursins. Þessi sókn hefur m.a. orðið til þess að æ fleiri ríki á Vesturlöndum reisa nú háa múra til að stemma stigu við straumi útlendinga til þeirra. Nýjasta dæmið um slíkar aðgerðir er frá Danmörku þar sem ný ríkisstjórn hægri flokkanna hefur þrengt svo að dvöl útlendinga í landinu að undrun sætir og bítur svo höfuðið af skömminni með því að skera niður framlög til þróunarverkefna um tug milljarða ísl. kr.

Það er mikil skammsýni að halda að háar landamæragirðingar leysi einhvern vanda í bráð og lengd þótt þær geti verið vel fallnar til pólitískra vinsælda um skamma hríð. Hér á Íslandi ber okkur að gjalda varhug við þróuninni hjá frændum okkar í Danmörku. Við höfum sótt margt gott til þeirra í gegnum tíðina en nýja stefnan þeirra í útlendingamálunum verður okkur þó seint til eftirbreytni.

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að víkja máli mínu að stöðunni í Afganistan og stríðinu þar. Eins og margoft hefur komið fram, bæði í máli mínu og annarra hv. þm. hér í haust, þá hafa þjóðir heims sýnt Bandaríkjamönnum og Bandaríkjastjórn sjálfsagðan pólitískan og siðferðilegan stuðning í kjölfar hryðjuverkanna í New York og Washington 11. sept. sl. Þessar hrikalegu árásir særðu bandarísku þjóðina djúpum sárum sem seint munu gróa. Ég verð þó að segja, herra forseti, að hástemmdar yfirlýsingar um breytta heimsmynd í kjölfar þessara skelfilegu atburða standa ekki allar undir sjálfum sér.

Hvað hefur í raun breyst, herra forseti? Jú, það hefur myndast samstaða gegn hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum. Ég hafði þó ætlað að flestar þjóðir heims væru andsnúnar hryðjuverkasamtökum fram að 11. sept. Hefur valdastrúktúrinn í alþjóðasamfélaginu breyst? Ekki tiltakanlega að því er ég fæ séð, herra forseti. Er hinn nýi óvinur skýr og greinilegur í hugum allra? Ég er ekki alveg viss um það og ég er ansi hrædd um að þegar til þess kemur að skilgreina óvininn í formi hryðjuverkamanns eða hryðjuverkasamtaka þá gætu skilgreiningarnar orðið ansi margar. Er óvinurinn Tsjetsjenar? Er hann í formi Úgúra í Kína? Er hann Palestínumenn í Ísrael, Kúrdar í Tyrklandi? Það er kannski ágætt að hafa þetta í huga, herra forseti, í þessari umræðu.

Það er nefnilega þannig að hvergi í alþjóðalögum eða sáttmálum eru hryðjuverk skilgreind með fullnægjandi hætti. Úr því þarf að bæta. Ella er sú hætta fyrir hendi að ríkisstjórnir víða um heim skilgreini hryðjuverkamennina eftir pólitískri hentisemi. Sagan kennir okkur að annað eins hefur gerst.

Hæstv. forseti. Stríð Bandaríkjanna og Bretlands í Afganistan hefur nú staðið í þó nokkrar vikur, frá 7. okt. sl. Fréttir hafa borist okkur á sl. dögum um skelfilega atburði, blóðbað í Mazar-e-Sharif og mannréttindasamtök krefjast rannsókna vegna þess að grunur leikur á að stríðsglæpir hafi verið framdir.

Síðast þegar ég frétti lék höfuðpaur al Qaeda hryðjuverkasamtakanna, Osama bin Laden, enn lausum hala en líklega einhvers staðar í Afganistan.

Hæstv. forseti. Ég þori að fullyrða að fáir gráta ógnarstjórn talibana, a.m.k. engar konur. En hvað tekur við? Nú standa yfir fundahöld í Bonn í Þýskalandi. Og hvernig má það vera, herra forseti, að þjóðir heims styðji myndun svokallaðrar þjóðstjórnar í Afganistan sem helmingur þjóðarinnar á engan aðgang að? Hvar eru afgönsku konurnar, herra forseti? Þær eru ekki við samningaborðið í Bonn, svo mikið er víst. Það er algjörlega óviðunandi að hið gríðarlega uppbyggingarstarf sem fyrir höndum er í Afganistan eigi að fara af stað eða að leggja eigi grunninn að því án þess að réttindi kvenna séu tryggð eða tilraun til þess gerð eða þátttaka kvenna tryggð í því ferli sem fram undan er.

Því spyr ég, herra forseti: Hver ætlar að tryggja réttindi og öryggi kvenna í Afganistan? Forkólfar Norðurbandalagsins segjast ekki þurfa utanaðkomandi hjálp til þess. Þeir háu herrar eru þekktir fyrir flest annað en að vera unnendur jafnréttis og kvenfrelsis. Að mér læðist sá illi grunur að réttindum kvenna í Afganistan verði enn eina ferðina fórnað á altari stríðsherranna, innlendra og útlendra, ef ekki verður gripið undir eins í taumana og samtökum kvenna veittur aðgangur að þjóðstjórnarferlinu og uppbyggingu landsins. Eins og hæstv. utanrrh. tók fram í sinni ræðu þá er gríðarlegt verkefni fyrir höndum.

Það er yfirvofandi hungursneyð í Afganistan. Vegna þess var sent út neyðarkall í byrjun september, löngu fyrir þá atburði sem hrundu stríðinu af stað. Flóttamannavandinn er einnig gríðarlegur. Þessi neyðarhjálp, herra forseti, mun kosta fjármuni. Hún mun ekki kosta neina smápeninga og nú er ekki tíminn til þess að draga úr fjárframlögum, hvorki okkar né annarra, til þróunarsamvinnu og neyðarhjálpar.

Hæstv. forseti. Mig langar að drepa hér aðeins á Evrópuumræðuna, þótt hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Rannveig Guðmundsdóttir hafi farið ítarlega yfir hana fyrir hönd Samfylkingarinnar. Mig langar þó aðallega að benda á, og sérstaklega í tilefni af orðum hv. formanns utanrmn. Alþingis, að það ferli sem nú er farið af stað í Samfylkingunni er umræðuferli um Evrópumálin þar sem allt er uppi á borði, opinn vettvangur þar sem flokksmenn og aðrir geta tekið þátt í vandaðri og upplýstri umræðu um Evrópumálin. Það ferli sýnir meiri pólitískan kjark en a.m.k. Sjálfstfl. býr yfir.

Það er með hreinum ólíkindum að hv. formaður utanrmn. skuli koma hér í þennan ræðustól og tala um að það að ræða stöðu efnahagsmála og evrunnar með tilliti til Íslands hafi það beinlínis í för með sér að grafa undan gengi íslensku krónunnar. Hvert mun svona málflutningur á endanum leiða okkur, herra forseti? Ég spyr.

Að öðru, þ.e. ummælum hæstv. utanrrh. um ríkisstyrki. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra, eins og ég reyndi að spyrja hæstv. umhvrh. um daginn í umræðunni um skýrsluna frá Marrakesh, hvort losunarkvótarnir sem við fengum þar með sérákvæðinu verði meðgjöf ríkisins með stóriðjunni? Ríkisstyrkir eru til í ýmsu formi, herra forseti, og það væri kannski gott að fá það fram hér hvort það er samræmi í þessari stefnu ríkisstjórnar Íslands.

[14:15]

Hér hefur einnig verið gerð að umræðuefni þáltill. þingmanna Samfylkingarinnar um sjálfstæði Palestínu. Vegna þeirra ummæla sem hér féllu fyrr í umræðunni um þáltill. sem samþykkt var árið 1989 er ég fyllilega sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að það var og er mjög góð tillaga enda hlýtur hún enn að vera í fullu gildi eins og annað sem komið hefur frá hinu háa Alþingi. En síðan náðist friðarsamkomulag árið 1993 þó að það hafi gengið jafnilla og raun ber vitni að halda samkomulagið. Því er það svo að við þingmenn Samfylkingarinnar teljum brýnt að hið háa Alþingi lýsi yfir pólitískum stuðningi við hina palestínsku þjóð og vilja sínum til að styðja við sjálfstæði hennar. Ég á fyllilega von á því að um þetta mál ríki algjör þverpólitísk samstaða hér á Alþingi.

Mig langar einnig að víkja að stöðu mannréttindamála, og kannski sérstaklega með tilliti til þess, herra forseti, að hæstv. utanrrh. hélt nýverið í opinberar heimsóknir, m.a. til Japans, Kína og Rússlands, og ég efast ekki um að margt hefur borið á góma í viðræðum sem hæstv. ráðherra hefur átt við ráðamenn þessara landa. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi í heimsókn sinni til Kína rætt sérstaklega stöðu mannréttindamála við ráðamenn þar.

Í því sambandi vil ég minna á að í Kína liggur dauðarefsing við yfir 60 brotum, og líklega eru þar framkvæmdar fleiri dauðarefsingar en í nokkru öðru landi í heiminum. Þar verða minnihlutahópar, trúarhópar sérstaklega, bæði kristnir og múslimar og fylgjendur Falun Gong iðkunarinnar, fyrir ofsóknum af hálfu ríkisvaldsins. Fróðlegt væri að vita hvort þetta hefur verið rætt í opinberri heimsókn hæstv. utanrrh. til Kína.

Í framhjáhlaupi vil ég líka minna hv. þingmenn á að ofsóknirnar geisa víða. Í Egyptalandi geisa þær gegn samkynhneigðum, aðallega karlmönnum sýnist mér, þar sem fjöldi karlmanna hefur verið dæmdur til þrælkunarvinnu fyrir kynhneigð sína. Þessu ber hinu háa Alþingi einnig að mótmæla.

Herra forseti. Ég ætla síst að draga úr mikilvægi þess að afl utanríkisþjónustunnar sé nýtt til að afla nýrra markaða fyrir íslenskar vörur og tryggja frjálsa verslun við sem flest ríki heims. En slík útrás verður að haldast í hendur við kröfuna um virðingu fyrir mannréttindum, frelsi og jöfnuði. Ég er hjartanlega sammála hæstv. utanrrh. um að skilin á milli alþjóðastjórnmála og annarra stjórnmála innan lands verða sífellt óskýrari og í raun skipta þau engu máli þegar upp er staðið því að sama lífssýnin hlýtur að ráða ferð.

Við hjá Samfylkingunni teljum að lífssýn jafnaðar og kvenfrelsis eigi að ráða innan lands sem utan. Það er hlutverk okkar á alþjóðavettvangi að beita okkur fyrir því að draga úr fátækt, að jafna kjörin, og það gerum við m.a. með öflugri þróunarsamvinnu og annarri aðstoð við fátækustu ríki heims.