Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 14:21:25 (2182)

2001-11-29 14:21:25# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin hvað varðar Afganistan og lýsa ánægju minni með að það skuli hafa komið fram í máli hans hjá Sameinuðu þjóðunum að auðvitað beri þeim og aðildarríkjum þeirra að vinna samkvæmt samþykktum öryggisráðsins þar um. Það er mjög brýnt að mistök fortíðarinnar verði ekki endurtekin í Afganistan. Það hefur ýmislegt gengið á þar og það hefur áður verið gengið til friðarsamninga og konurnar gleymst þannig að við skulum halda þessu til haga, herra forseti.

Hvað varðar ríkisstyrkina og losunarkvótana er það þó þannig, herra forseti, að þeir munu, þ.e. kvótarnir, hafa verðgildi. Það á eftir að koma í ljós hvert það verður. Og ef þau fyrirtæki sem hingað munu líklega leita kæmu ekki hingað þyrftu þau að kaupa kvótana annars staðar, í öðrum löndum, þannig að auðvitað hefur losunarkvótinn sem slíkur eitthvert verðgildi og gæti því reiknast sem styrkur.

Að lokum langar mig til að ítreka hvatningu mína til hæstv. utanrrh. um stöðu mannréttindamála í Kína og spurninguna um hvort þau hafi borið á góma í viðræðum hans við ráðamenn þar.