Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 14:28:27 (2186)

2001-11-29 14:28:27# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans og greinargerð.

Í upphafi þessarar fyrri ræðu minnar langar mig að fara örfáum orðum um för mína um miðjan nóvembermánuð á vegum utanrrn. til Kosovo til að fylgjast þar með kosningum. Kosningarnar fóru fram hinn 17. nóvember og þrír fulltrúar frá Íslandi fóru til Kosovo, ásamt mér þeir Jón Ólafsson, heimspekingur frá Háskóla Íslands, og Finnbogi Rútur Arnarson, starfsmaður utanríkisþjónustunnar en mér skilst að hugmyndin hafi verið sú af hálfu utanrrn. að einn fulltrúi færi frá háskólanum, annar úr stjórnsýslunni og hinn þriðji af vettvangi stjórnmálanna.

Við vorum á meðal á nítjánda hundrað fulltrúa sem voru í Kosovo á vegum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, og ég held að óhætt sé að segja að þessar kosningar sem okkur var gert að hafa umsjón með tókust afar vel. Þær fóru friðsamlega fram, kosningaþátttaka var allgóð eða 63%, u.þ.b. sem menn höfðu gert sér vonir um.

[14:30]

Varðandi tildrög þessara kosninga þá eru þær byggðar á samþykkt öryggisráðsins nr. 1244 frá því í júní árið 1999, en þá var ákveðið að gera Kosovo að eins konar sjálfstjórnarsvæði. Ekki var kveðið á um sjálfstæði Kosovo þótt Kosovo-Albanar hafi mjög ákveðnar hugmyndir um að þangað beri að stefna. En næsta mánuð á eftir, júlí 1999, var ákveðið að senda lið til Kosovo á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Fulltrúar Öryggis- og samvinnustofnunarinnar höfðu áður verið á þessum slóðum en horfið á brott þegar NATO hóf loftárásir á þetta svæði.

Kosningar höfðu áður farið fram í Kosovo. Þar fóru fram sveitarstjórnarkosningar í fyrra en þær voru því marki brenndar að serbneski minni hlutinn í Kosovo sniðgekk kosningarnar. Að þessu sinni var hart unnið að því að fá serbneska minni hlutann til að taka þátt í kosningunum. Það tókst betur en menn höfðu gert sér vonir um. Þátttaka serbneska minni hlutans í kosningunum var allgóð en flokkur þeirra fékk 11,34% atkvæðanna. Menn gera sér ekki fyllilega grein fyrir því hver fjöldi fólks af serbneskum uppruna er í Kosovo. Margir hafa flúið land. En þetta var heldur betri kosningaþátttaka af þeirra hálfu en menn höfðu áður trúað að gæti orðið.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að 120 fulltrúar eru kosnir á þing Kosovo, 100 með hlutfallskosningu en til að tryggja aðkomu minnihlutahópa að þinginu var ákveðið að 20 þingsætum yrði ráðstafað til þeirra óháð kosningunum. Þegar það síðan gerist að kosningaþátttaka serbneska minni hlutans var þetta mikil komu fram efasemdir af hálfu Kosovo-Albana um hvort þetta hefði verið skynsamleg ráðstöfun.

Í Kosovo er ástandið mjög erfitt. Þar fer að sönnu fram mikið uppbyggingarstarf á vegum Sameinuðu þjóðanna og ÖSE-fulltrúar leggja þar hönd á plóg. Evrópusambandið kemur einnig mjög við sögu varðandi uppbygginguna. Hinu verður þó ekki horft fram hjá, að hið pólitíska ástand í landinu er mjög erfitt því samfélagið er að mörgu leyti sært djúpum sárum sem eiga sér rætur langt aftur í fortíðina. Það virðist hafa gerst sem oft virðist gerast, að hinn undirokaði gerist kúgari þegar hann kemst í aðstöðu til þess.

Við sinntum okkar starfi í bæ sem heitir Djakova, sem er í suðvesturhluta Kosovo, nærri landamærunum við Albaníu. 100--150 þúsund íbúar bjuggu þar. Talið er að Serbar í þessum bæ hafi áður verið 5--10% íbúanna. Þegar við komum þangað voru þeir fimm talsins, fimm einstaklingar, fimm nunnur sem létu lítið fyrir sér fara. En við sáum merki stríðsins, bæði loftárásanna og svo einnig hins að Kosovo-Albanar höfðu eyðilagt ýmsar eigur og fornar minjar sem kenndar voru við serbneska minni hlutann. Fyrir framan hótelið sem við bjuggum á, svo dæmi sé tekið, voru rústir serbneskrar kirkju sem hafði verið sprengd í loft upp. Við sáum þess einnig dæmi að þorp og bæir þar sem Serbar bjuggu voru girtir af og varðstaða um þá til að verja fólkið árásum.

Kosningarnar virðast með öðrum orðum hafa farið vel fram og friðsamlega en mikið starf er fram undan við að byggja þetta samfélag upp á friðsamlegan hátt. Landið er hættulegt yfirferðar. Þar er enn mikið af ósprungnum sprengjum að því er talið er, sprengjum sem varpað var úr flugvélum í loftárásunum á sínum tíma. En talið er að á milli 10 og 30% klasasprengna, sem hafa verið mjög í umræðu bæði í loftárásunum á Balkanskagann og núna á Afganistan, springi ekki. Það óhuggulega við það er að það eru engin mistök, það eru engin tæknileg mistök. Gert er ráð fyrir því við hönnun sprengnanna að þær springi ekki fyrr en síðar. Þær eiga ekki að drepa samstundis.

Við kynntumst í þessari för starfi Íslendinga í Kosovo á vegum alþjóðastofnana, á vegum Sameinuðu þjóðanna, á vegum ÖSE og annarra stofnana, UNIFEM, svo dæmi sé tekið. Hrund Gunnsteinsdóttir hefur tekið við merki Kristínar Ástgeirsdóttur sem starfaði þarna um nokkurra mánaða skeið. Ég er sannfærður um að þær hafa unnið mikið og merkilegt starf við að treysta réttarstöðu kvenna í Kosovo. Almennt hrifumst við af starfi Íslendinganna á þessum slóðum. Ég vil lýsa stuðningi við þá viðleitni hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar að efla starf Íslendinga á þessum vettvangi og vildi gjarnan heyra frá hæstv. utanrrh. hvernig hann sér framtíðina fyrir sér í þessum efnum. Við höfum áður rætt um að til standi að efla aðkomu okkar að þessu alþjóðastarfi, t.d. á vegum ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, og á vegum Sameinuðu þjóðanna. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lýst yfir stuðningi við slíkt starf.

Hvaða lærdóm má draga af þessu starfi og þessum atburðum í Kosovo? Að vissu leyti er atburðarásin, um sumt, sambærileg við það sem gerðist í Afganistan. Þær aðstæður koma upp að alþjóðasamfélagið, sem svo hefur verið nefnt, þarf að grípa í taumana, en að okkar dómi þarf það að gerast á lýðræðislegum forsendum og jafnan þarf að virða alþjóðlega samninga um mannréttindi. Það sem gerðist á Balkanskaganum og endurtók sig í Afganistan er að Bandaríkjamenn --- í fyrra skiptið var það Atlantshafsbandalagið, í síðara skiptið Bretar og Bandaríkjamenn --- fara sínu fram án samþykkis hins svokallaða alþjóðasamfélags, án samþykkis Sameinuðu þjóðanna, án samþykkis öryggisráðsins, þótt menn hafi sumir viljað láta í veðri vaka að árásirnar á Afganistan hafi verið gerðar samkvæmt samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Svo var ekki.

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af því sem er að gerast í Afganistan nú um stundir og fréttir berast af voveiflegum atburðum þar. Það var sagt hér í ræðustól fyrr í dag að mannslífið væri jafnverðmætt hvar sem er í heiminum, hvort sem væri á Vesturlöndum eða í Austurlöndum, hvort sem er í norðri eða suðri. Í fréttaflutningi frá Afganistan finnst mér koma mjög greinilega í ljós sá tvískinnungur sem gildir í þessu efni. Í blöðum í dag er greint frá því að bandarískur hermaður hafi fallið í bardaga. En við fáum líka fréttir af því, og hér má sjá í frétt í Morgunblaðinu, þar sem hermaður Norðurbandalagsins sést sparka í lík fallins manns í virkinu Qala-I-Jangi, fangelsinu þar, að grunur leiki á að 600 manns sem voru fangar þar hafi verið myrtir.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa óskað eftir því að fram fari rannsókn á tildrögum þessara aftaka eða morða. Hvers vegna segi ég það og hvers vegna segja fulltrúar Amnesty International þetta? Jú, fréttamenn sem fóru inn í fangelsið staðhæfa að þar hafi fjöldi manns verið með hendur bundnar fyrir aftan bak. Þær grunsemdir hafa vaknað að sigurherrarnir nýju vilji ekki taka andstæðinga sína til fanga heldur taka þá af lífi án dóms og laga eða í besta falli eftir að herdómstóll hefur fjallað um mál þeirra. Það berast fréttir af miklu mannfalli af völdum loftárásanna á Afganistan og sannast sagna hrýs mér hugur við þeirri tilhugsun að í landinu muni nú vera mörg hundruð þúsund sprengna víðs vegar um landið sem eiga eftir að springa á komandi vikum, mánuðum og hugsanlega árum.

Menn sem hafa efast um þessar loftárásir Bandaríkjamanna og þau mannréttindabrot sem eru framin eða virðast vera framin og ásakanir eru uppi um að séu framin í skjóli þeirra, hafa verið sakaðir um --- þeir sem hafa haldið slíku á lofti --- and-bandaríska stefnu. Breska tímaritið New Statesman, svo dæmi sé tekið, spyr hverju slíkir menn mundu svara flóttamanninum Zumeray sem greinir frá því að 40 manns hafi fallið eða hann hafi séð lík 40 manna í Kunduz þaðan sem hann flúði eftir loftárásir Bandaríkjamanna. Fólkið brann í sprengjuregninu, segir hann. Aðrir urðu undir þakinu sem hrundi. Hverju svörum við þessum manni þegar hann ber fram ásakanir sínar gegn Bandaríkjunum og þeim sem stýra sprengjuregninu þar? Er hann að halda fram and-bandarískum sjónarmiðum? Er hann stuðningsmaður hryðjuverkanna? Nei, hann er stuðningsmaður síns fólks og hann er stuðningsmaður mannréttindanna.

Mér finnst að Íslendingar og hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin eigi að fara gaumgæfilega í saumana á þeim ásökunum sem núna fram eru bornar af mannréttindasamtökum á borð við Amnesty International, ekki síst í ljósi hins afdráttarlausa stuðnings sem íslenska ríkisstjórnin hefur veitt Bandaríkjamönnum og Bretum í árásum þeirra á Afganistan.