Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 14:43:32 (2187)

2001-11-29 14:43:32# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Voðaverkin sem framin voru í Bandaríkjunum þann 11. sept. settu líf mannkyns úr skorðum. Veröldin verður aldrei söm, ekki frekar en eftir önnur voðaverk sem framin hafa verið gegn mannkyni í aldanna rás. Öll voðaverk sem framin eru gegn mannkyni eru endanleg og breyta heiminum. En því miður, herra forseti, ekki til hins betra.

Margt hefur verið rætt og ritað um þá atburði sem fylgdu í kjölfar 11. sept. og hæstv. utanrrh. kom inn á það í upphafi ræðu sinnar og ég get sannarlega tekið undir margt af því sem kom fram í máli hans. En þegar rifjaðir eru upp þessir atburðir og við skoðum þá í ljósi þess sem gerst hefur síðan þá koma ýmsar myndir upp í kollinn. Ein er mér afar minnisstæð. Það er mynd af sjónvarpsskjánum, örfáum dögum eftir að tvíburaturnarnir í New York hrundu. Myndin sýndi kertaljós og kort og kveðjur til fórnarlamba árásanna og myndavélinni var beint að einu kortinu sem hékk á grindverki. Á þessu korti stóð á ensku: ,,Our grief is not a cry for war.`` Það mundi útleggjast á íslensku: Sorg okkar er ekki ákall um stríð.

[14:45]

En það varð stríð eins og við öll vitum. Það breytir því ekki að stríðinu er mótmælt af friðarsinnum úti um allan heim. Í okkar landi hafa verið gengnar friðargöngur til að reyna að vekja ákall um frið á þessum erfiðu tímum. Í sannleika sagt er engin barátta jafnmikil meirihlutabarátta og friðarbaráttan.

Við erum öll í friðarbaráttu en auðvitað beitum við í þeirri baráttu eins og annarri baráttu ólíkum meðulum. Oft er erfitt að sætta sig við þau meðul sem beitt er. Nú um þessar mundir er erfitt að horfa upp á það sem er að gerast í Afganistan.

Talibanar hafa hrökklast frá Kabúl, Norðurbandalagið hóf þar innreið sína og Vesturlönd fögnuðu. En ekki eru mörg ár síðan Norðurbandalagið var hrakið frá Kabúl og Vesturlönd fögnuðu. Stundum eru stríðsátökin svo öfugsnúin og svo undarleg að það virðist ekki heil brú í einu eða neinu og það er ekki skrýtið þó fólk eigi erfitt með að skilja. Núna sem sagt fagna því allir að talibanar skuli vera farnir frá Kabúl þó að þeir séu ekki hættir að berjast. Nýlega hefur foringi þeirra gefið út þá tilskipun að menn þeirra muni berjast fram í rauðan dauðann. Þeir eru þó farnir frá Kabúl og það virtist vera stórt skref og kannski bjuggust sumir við að þá mundi eitthvað breytast.

Enn hefur þó ekkert breyst. Stríðið gegn hryðjuverkunum heldur áfram og Osama bin Laden er enn ófundinn. Við reynum að réttlæta þetta stríð og það er reynt að gera í flestum löndum heims en maður skilur ekki rökin og stendur ráðalaus hjá. Hvað er á seyði? Hvað gerðist í fangelsinu þar sem síðustu fréttir herma að fangauppreisn hafi verið barin niður á þann hátt að 600 fangar voru myrtir. Kannski var engin fangauppreisn. Hvað þarf að gerast í stríði til að sprengjum sé varpað á fangelsi? Hvað verður þá um alla mannréttindasáttmála? Og hvað verður þá um réttindi fanga á stríðstímum? Það er ekki eins og við höfum ekki undirritað alþjóðlega samninga sem eiga að tryggja föngum rétt á stríðstímum.

Hvað er á seyði þegar Bandaríkjamenn segjast ekki ætla að taka fanga? Hvað þýðir það? Nei, herra forseti, burt séð frá áliti okkar á talibönum, sem virðist nokkuð samhljóma, þá er spurning hvort nokkuð geti réttlætt sprengjuárásir á fangelsi. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa krafist rannsóknar á því sem í raun gerðist. Vonandi á sú rannsókn eftir að leiða eitthvað í ljós. En hún á ekki eftir að færa mannkyninu aftur þau líf sem fórnað var, ekki frekar en önnur líf sem fórnað hefur verið í þeim styrjöldum sem háðar hafa verið.

Herra forseti. Aðra hluti þarf að hafa í huga á alþjóðavettvangi og það eru hlutir sem koma upp í hugann þegar átök af því tagi sem nú geisa skekja veröldina. Mig langar að gera í nokkrum orðum málefni barna að umtalsefni í því sambandi, vegna þess að þjóðir heims hafa undirritað sáttmála sem eiga að tryggja rétt barna í heiminum hvar sem er og hvenær sem er.

Til stóð að í september yrði haldið sérstakt aukaþing Sameinuðu þjóðanna sem átti að fjalla um málefni barna til að fylgja eftir ályktunum þings sem haldið var á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1990 og kallað var Alheimsráðstefna um réttindi barna eða World Summit for Children.

Þetta þing Sameinuðu þjóðanna um málefni barna var ekki haldið vegna atburðanna 11. september. En Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, skrifaði í rit sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út sem nokkurs konar aðfaraorð að því þingi, sem vonandi verður haldið á næsta ári, orð sem mættu útleggjast á þennan veg, með leyfi herra forseta:

,,Öll börn ættu að búa við það frelsi að geta notið góðrar heilsu, friðar og mannlegrar reisnar.``

Herra forseti. Íslendingar verða að leggja sín öflugu lóð á vogarskálarnar til þess að tryggja slíkt frelsi fyrir öll börn í öllum löndum án nokkurra undantekninga. Það má engar undantekningar gera, herra forseti.

Hvar eru börn þessarar veraldar stödd í dag? Sérstakur sendiherra Kofi Annans, Olara Otunnu, fer nú um heiminn til að freista þess að fá barnaheri afvopnaða. Börn ganga undir vopnum sem eru --- það er sorglegt að segja það --- í ákveðnum tilfellum framleidd á Vesturlöndum og keypt af þjóðum sem eiga í stríði. Hver er ábyrgð Vesturlanda í málefnum af þessu tagi?

Íslendingar eiga öflug lóð og eiga að leggja þau á vogarskálar í alþjóðlegu samstarfi um mannréttindamál. Íslendingar verða að leggja lóð sín á vogarskálarnar þegar réttindi barna eru til umfjöllunar. Það hefur ýmislegt áunnist á síðustu árum í réttindum barna. Það verður að segjast eins og er að þremur milljónum færri börn undir fimm ára aldri deyja nú en fyrir tíu árum. Það má m.a. þakka árangri af bólusetningum og af félagslegri aðstoð. Í þróunarlöndunum þjást nú vegna vannæringar 28 milljónum færri börn undir fimm ára aldri en fyrir tíu árum.

En þrátt fyrir þennan mælanlega árangur af starfi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparstofnana deyja enn um tíu milljónir barna vegna sjúkdóma, sem þó eru til lækningar við. 600 milljónir barna lifa enn við sára fátækt og meira en 100 milljónir barna eiga ekki kost á neinni menntun. Vart þarf að taka fram, herra forseti, að flest þeirra barna eru stúlkur.

En hvað þarf að gera til að ná enn frekari árangri? Að mati aðalritara Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annans, liggur lausnin m.a. hjá leiðtogum þjóða heims. Svarið er að mati hans fólgið í því að leiðtogar þjóða standi undir þeim skyldum sínum að hagsmunir barna séu skoðaðir sérstaklega við hverja einustu pólitísku ákvörðun sem tekin er og við hverja einustu viðskiptalegu ákvörðun sem tekin er í veröldinni. Þess utan þurfa ráðamenn að hvetja til þess að hagsmunir barna séu hafðir til hliðsjónar við allar okkar daglegu athafnir og hegðun. Þetta er ábyrgð ráðamanna veraldarinnar og við Íslendingar erum þar á meðal. Í alþjóðasamstarfi megum við ekki gleyma þeim staðreyndum.

Það er ekki gaman, herra forseti, að þurfa að fjalla um þær ógnir sem steðja að börnum í heiminum. Það er sárt og tekur á að þurfa að minna stöðugt á þá hræðilegu staðreynd að hundruð þúsunda kvenna og barna skuli á ári hverju ganga kaupum og sölum á milli landa til að fullnægja kynlífsfýsnum karla á Vesturlöndum. Það er þyngra en tárum taki þegar maður les í ritum Sameinuðu þjóðanna að staðfestur fjöldi þeirra barna sem í Asíu einni þurfa að þjást í kynlífsiðnaði og þola þar kynferðislega misnotkun er ein milljón.

En það er ekkert, herra forseti, sem réttlætir þögnina. Það er erfitt að tala um ýmsa hluti í alþjóðlegu samstarfi, m.a. þetta sem hér er rætt. Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir gerð fjölda alþjóðlegra, mikilvægra samninga sem ætlað er að taka á mannréttindabrotum og Íslendingar eru aðilar að flestum þeirra, m.a. þeim samningi sem undirritaður var í Palermo í desember á síðasta ári og hæstv. dómsmrh. hefur sagt okkur að unnið sé að fullgildingu á, en hann á að reyna að koma í veg fyrir mansal sem viðgengst á vegum skipulegra glæpasamtaka í heiminum. Ég treysti því, herra forseti, að hæstv. utanrrh. geti beitt sér í slíkum málum áfram á þeim nótum sem hæstv. dómsmrh. hefur lýst að verið sé að gera í þessum tiltekna samningi og sömuleiðis að íslensk stjórnvöld geti staðið vörð um hagsmuni mannréttinda og reyni allt sem hægt er á þeim vettvangi til að koma í veg fyrir þau skelfilegu mannréttindabrot sem framin eru í veröldinni á hverjum degi.

Sameiningarmáttur og samstaða þjóða getur áfram unnið kraftaverk í því að koma börnum heimsins til bjargar. Ég hvet þess vegna ráðamenn Íslands og brýni: Aldrei er of oft lögð áhersla á að hagsmuni barna þurfi að hafa í huga í hvert sinn sem við tökum þátt í alþjóðlegum pólitískum aðgerðum og undirritaðir eru alþjóðlegir samningar um viðskipti milli þjóða.

Herra forseti. Það líður að lokum ræðutíma míns en eitt af þeim málum sem hæstv. utanrrh. gerði að umræðuefni í ræðu sinni var Kyoto-bókunin. Þar kveður nú við annan tón en oft áður í máli hæstv. ráðherra. Nú tryggir Kyoto-bókunin efnahagslega hagsmuni Íslands vegna þess að undanþágu\-ákvæðið sem fjallað var um hér í löngu og ítarlegu máli á Alþingi fyrir fáum dögum náði fram að ganga.

Hæstv. utanrrh. hefur gagnrýnt stjórnarandstöðuna fyrir að vinna gegn hagsmunum Íslendinga í því máli. En það var athyglisvert að hlýða á þann bút í ræðu hæstv. utanrrh. þar sem hann fjallaði um þá skyldu stjórnarandstöðunnar að gagnrýna ríkisstjórnina. Hæstv. utanrrh. fór um það þeim orðum að hann hefði sjálfur verið í því hlutverki. Ég lít því svo á að stjórnarandstaðan á Alþingi hafi verið að sinna skyldum sínum með gagnrýni sinni. Ég vil halda því fram að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á þetta undanþáguákvæði hafi átt fullan rétt á sér og hafi verið sjálfsögð. Hún virðist meira að segja hafa skilað sér vegna þess m.a. að virkustu gróðurhúsalofttegundirnar, þ.e. flúorkolefnin, voru tekin út úr tillögu Íslendinga á ákveðnu stigi í samningaviðræðunum og að auki var sett á hana þak. Ég tel að stjórnarandstaðan, sem hefur veitt stjórnvöldum ákveðna gagnrýni í þessu máli, hafi að hluta til unnið sigur vegna þess að eftir gagnrýninni var tekið og hún skilaði sér.

Herra forseti. Hafi ég orku og þrek til að koma hér upp í síðari ræðu mína þá hef ég heilmargt um umhverfismálin að segja, sem eru vissulega eitt af stærstu málunum fram undan. Meðal þess sem þarf að gera á þeim vettvangi er að taka þátt í Jóhannesarborgarþinginu, Ríó plús 10 árið 2002. Ég treysti því að hæstv. umhvrh. styðji það að Alþingi Íslendinga geti á öflugan hátt tekið þátt í því þingi.