Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 14:58:58 (2188)

2001-11-29 14:58:58# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég gagnrýni það ekki að stjórnarandstaða veiti ríkisstjórn aðhald. Það getur stundum verið afskaplega mikilvægt að svo sé gert í mikilvægum erlendum samningum. Það er ekkert sjálfsagt í þeim efnum. Við skulum taka sem dæmi landhelgismálið og fiskveiðisamninga. Við viljum yfirleitt ná betri samningum en við náum og því er mikilvægt að gagnrýnisraddir heyrist innan lands um hvað þjóðinni er mikið niðri fyrir í sambandi við slík mál. Það átti líka við um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

En ég hef skilið gagnrýni hv. þm. í þessu máli allt öðruvísi. Það má vel vera að þar hafi verið um misskilning að ræða. Ég hef skilið hv. þm. þannig að hann hafi verið algjörlega andvígur því að Íslendingar færu fram á að fá sérstök réttindi í þessu sambandi. Það hefur ekki hjálpað okkur á erlendri grund. Þvert á móti hefur það verið okkur erfitt. Hefði hv. þm. hins vegar gagnrýnt okkur fyrir að við værum ekki með nægilegar kröfur í þessu sambandi, þá hefði það verið mjög hjálplegt í málinu. En gagnrýni stjórnarandstöðunnar í þessu tiltekna máli hefur verið þröskuldur á vegi okkar í samtölum og samningum erlendis. Ég hef upplifað það en hins vegar hefði verið afar hjálplegt ef ríkisstjórnin hefði verið gagnrýnd fyrir að hún væri með afskaplega litlar kröfur í þessu sambandi. Þessu vildi ég koma á framfæri við hv. þm. í fullri vinsemd.