Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:01:57 (2190)

2001-11-29 15:01:57# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Ég ætla ekkert að segja til um hvort það er hv. þm. að þakka að ríkisstjórnin náði ekki þeim árangri sem hún stefndi að í þessu máli. En það er svo í öllum samningum að menn verða að vera tilbúnir til að víkja eitthvað frá því sem upphaflega er fram sett.

Ég er hissa á hv. þm. skuli lýsa þessu yfir því að ég tel að þarna hafi verið um þjóðarhagsmuni að ræða. En hv. þm. hefur staðfest það hér að hún er og var andvíg hvers kona beiðnum af hálfu Íslands í þessu sambandi. Hún er þá jafnframt að segja að hún hefði viljað sjá að álverið í Straumsvík hefði ekki verið stækkað, að álverksmiðjan í Hvalfirði hefði ekki verið byggð, að Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði hefði ekki verið stækkuð og ég tala nú ekki um álver á Austurlandi. Um þetta snýst málið.

Okkur tókst að tryggja möguleika þess að halda þessu verki áfram, til þess að efla íslenskt efnahagslíf, til þess að standa vörð um íslenskt velferðarkerfi og til þess að standa á því að við gætum nýtt auðlindir okkar með sjálfbærum hætti.

Ég tel að hv. þm. og flokkur hennar hafi farið miklu offari í þessu máli og við það mun ég standa. En sem betur fer hefur þetta tekist, þrátt fyrir það að engin hjálp bærist frá íslenskri stjórnarandstöðu, þvert á móti var það akkúrat í öfuga átt. En þegar ég gagnrýndi t.d. ríkisstjórnina á sínum tíma, t.d. vegna EES-samningsins, þá tel ég að það hafi verið til að hjálpa til í því máli. Ég er líka sannfærður um að gagnrýni á mig að því er varðar síldveiðisamninginn og að því er varðar Smugusamninginn var mikilvæg og nauðsynleg. Ég hef ekki kvartað undan þeirri gagnrýni, enda má alltaf deila um slíka samninga.