Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 15:06:09 (2192)

2001-11-29 15:06:09# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. utanrrh. og þakka honum greinargóða skýrslu um þau málefni sem hæst ber í umræðu um alþjóðasamskipti og utanríkismál okkar Íslendinga um þessar mundir.

Eðlilegt er að í umræðunni hafi fyrst verið vikið að áhrifum og afleiðingum atburðanna í New York og Washington hinn 11. sept. sl. Hvernig svo sem menn meta þau áhrif og þær afleiðingar í dag er ljóst að þar var framin árás á vestræn gildi og á alþjóðlegt samstarf sem á að miklu leyti miðstöðar sínar í Bandaríkjunum, þó svo Bandaríkin hafi ekki alltaf leikið stærsta hlutverkið í alþjóðlegu samstarfi, alla vega ekki öllum þáttum þess.

Mér er það ljóst, herra forseti, að árásin á þessar tvær borgir var gerð vitandi vits og sem slíkt er hún eins og hvert annað hermdarverk, lögbrot. Við getum engan veginn talið að lögbrot, af þessu tagi eða öðru, sé eðlileg baráttuaðferð fyrir einhverjum sjónarmiðum, hver sem sjónarmiðin kunna að vera. Þó ekki væri nema í því ljósi er alveg ljóst að viðbrögð Bandaríkjanna, viðbrögð alþjóðastofnana, fjölþjóðastofnana og ríkja sem eru utan þeirra en hafa brugðist við þessum árásum, eru fyllilega lögmæt. Afleiðingarnar af hermdarverkunum munu birtast víða og við Íslendingar munum eins og fleiri þjóðir á Vesturlöndum eiga eftir að súpa úr þeirri ausunni. Þegar hafa komið fram umtalsverð áhrif á íslenska ferðaþjónustu og á flugsamgöngur yfirleitt, milli Bandaríkjanna og annarra heimsálfa og þá ekki síst yfir Atlantshafið, sem við höfum til þessa leikið stórt hlutverk í.

Áhrifin munu birtast í samdrætti í flugsamgöngum og í ferðaþjónustu. Nú þegar höfum við séð fyrirtæki týna tölunni vegna þessara afleiðinga og áfram berast upplýsingar og enn standa yfir umræður um aukinn kostnað vegna öryggisgæslu eða annarra öryggisaðgerða. Fjárfestingarkostnaður í samgöngum og ferðaþjónustu eykst og í samræmi við það rekstrarkostnaður.

Niðurstaðan af þessum áhrifum eða afleiðingum mun birtast í versnandi lífskjörum, væntanlega í aukinni skattheimtu til að rísa undir þessum fjárfestingum, en einnig hækkandi verði þjónustunnar sjálfrar.

Menn hljóta mjög að velta fyrir sér hvar kann að vera að leita rótanna að atvikum sem þessum, hverjar kunna að vera ástæður þess að menn fremja slíkan verknað. Það verður að segjast að vísbendingar og ábendingar um stjórnarhætti talibana í Afganistan hafa verið mikið umhugsunarefni og verið efst á baugi í allri umræðu um þessi mál. Það er ljóst að stjórnarhættir þeirra eru engum til fyrimyndar og helst hægt að líkja við harðræðisstjórn Saddams Husseins í Írak, eða hverja aðra harðræðisstjórn sem við höfum þekkt á síðari áratugum, svo sem í Þýsaklandi nasismans og í Sovétríkjunum fyrrverandi.

Það er merkilegt að rifja upp, eins og gert var fyrir fáum dögum í umræðu hér í borg, að fyrir fáeinum áratugum, á sjöunda áratugnum, voru réttindi kvenna í Afganistan talin einna best tryggð í múhameðstrúarríkjum. Undanfarin ár, allan síðasta áratug, hafa réttindi kvenna þar, eins og réttindi almennings yfirleitt, verið algjörlega fótumtroðin, skipulega og vitandi vits.

Hins vegar er undarlegast að trúarbrögð eins og múhameðstrú sem þóttu umburðarlyndari en kristin trú fyrr á öldum, sérstaklega hin rómversk-kaþólska sem við köllum í dag en var þá nánast eina fyrirbrigðið af kristnum trúarbrögðum. Málin virðast hins vegar hafa þróast þannig í gegnum aldirnar að í múhameðstrú hafi vaxið upp enn þá meiri ofstækisöfl sem rekja forsendur sínar til trúarbragðanna en í kristnu samfélagi í dag.

Mér sýnist ljóst, herra forseti, að hugmyndaheimur talibana sé að mörgu leyti rakinn til trúarbragða, svo undarlegt sem það kann að virðast. Þetta hefur gerst í fleiri ríkjum íslams en í Afganistan, og margir hafa bent á að stjórnarherrar í Sádi-Arabíu gæli við mjög ofstækisfulla túlkun á múhameðstrú, grein af þeim trúarbrögðum sem talin eru hafa verið forsenda fyrir trúarbragðahugmyndum eða túlkun í síðustu hugmyndum og hugmyndaheimi talibana.

Það er hins vegar merkilegt að hugsa sér að orðið taliban merkir námsmaður. Ljóst er að þar er um að ræða unga menn sem hafa farið að heiman, forvitnir í leit að menntun, til að fræðast og öðlast þannig öruggari fótfestu í lífinu, en koma til baka sem fullkomnir ofstækismenn.

Ég segi svo, herra forseti, vegna þess að mér er ekki nokkur vegur að greina á milli ofstækis-talibana og samstarfsmanna þeirra Osama bin Ladens og félaga hans í hreyfingu hans al Qaeda. Mér er ekki nokkur leið að greina þar á milli.

Það er auðvitað svo að við erum aum undan þeim afleiðingum sem við sjáum í fjölmiðlum vegna núverandi styrjaldar í Afganistan. Samt sem áður getum við rakið ástæður þess að hún hefur tekið á sig þessa mynd, en þar birtist ekki síður en áður í slíkum tilvikum að aðstaða barna, kvenna og alls almennings er verst. Þau verða fórnarlömb allra stríðsherranna, hverjir sem þeir eru.

En víkjum að öðru sem hefur borið hér á góma og hefur stundum verið talin ein af ástæðunum fyrir hugmyndum múhameðstrúarmanna um að ráðast beri á vestræn gildi, vestræn mannvirki og jafnvel menningu. Sumir segja að deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna séu ein af ástæðunum. Ég get ekki fallist á þau rök, en látum það vera. Þær hugmyndir eru uppi. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hæstv. utanrrh. um sjálfsagðan rétt Palestínumanna til að eignast sitt eigið sjálfstæða ríki og snúa heim til eigin byggða eftir útlegð og hernám.

Það er rétt að nefna í þessu samhengi að fyrir fáeinum árum, þ.e. skömmu fyrir síðasta áratug, féll svonefnt aðskilnaðarríki í Suður-Afríku. Eftir að hafa komið oftar en einu sinni til Ísraels og Palestínu verð ég að viðurkenna að ég hygg að hefðu þær hugmyndir átt að standa lengur í Suður-Afríku, þá hefðu þeir þurft að fara í nám til Ísraelsmanna. Mér vitanlega hefur ekkert ríki í heiminum komist jafnlangt í aðskilnaði á milli bæði þjóðarbrota, trúarbragðahópa og stétta eins og Ísrael.

Það er ljóst að Ísraelsríki hefur verið seint til að taka undir alþjóðasamninga og staðfesta þá og lengi vel töldu öll vestræn ríki að þeir væru að brjóta slíka samninga á Palestínumönnum. Okkur á líka að vera ljóst að þarna er um að ræða stríð sem hefur staðið um þúsundir ára, hernám sitt á hvað og auðvelt að rekja hverjir áttust við í sögum Gamla testamentisins í hinni helgu bók. Það voru forfeður núverandi íbúa Palestínu og Ísraels.

[15:15]

Ég vænti þess að okkur sé ljóst að deilur af þessu tagi sem eiga sér svo langa sögu, svo djúp sár, eins og haft var á orði áðan um aðstæðurnar í Kosovo. Deilur af slíku tagi og sár sem eru svo djúp, verði aðeins leystar og sárin aðeins grædd með málamiðlunum og gagnkvæmum skuldbindingum allra sem í þeim hafa staðið og fleiri aðila sem geta lagt hönd á plóginn.

Mér er að vísu ljóst að okkar hönd er ekki svo þung að við getum breytt miklu um þessi mál, en sjálfsagt er að Íslendingar leggi sitt til þar sem það er unnt. Þó tel ég að meiru skipti að ríki sem hafa um nærri tvær aldir sóst eftir áhrifum í þessum heimshluta og vilja hlutast til um mál þeirra sem þar búa leggi gott til. Flest þeirra eru í dag heimsveldi en misjafnlega áhrifamikil. Hins vegar má líka vera ljóst að vandi Palestínumanna er nokkur því þeir eiga afskaplega litla arfleifð þess efnis sem við köllum ríki, sennilega síðasta þjóð þessa heimshluta til að gangast undir það sem við köllum nútímaríki og þá með annarri arabískri þjóð. Þeir voru ríkisborgarar í Jórdaníu. Afskipti ríkisvaldsins í Palestínu voru afskaplega lítil, nánast engin. Flestir Palestínumenn sem muna þá daga muna það eitt að þeir áttu jú ríkisfang með Jórdaníumönnum en vissu lítið um hvað ríkið yfirleitt var.

Vegna þess að við höfum borið hag þessa fólks fyrir brjósti og hér liggur fyrir tillaga Samfylkingarinnar í þessu máli verð ég að viðurkenna að mér sýnist eðlilegt að hún komi fram og lýsi þannig afstöðu flokksins sem telur sig nýjan en ég tel hins vegar að sú afstaða sem kemur fram í máli hæstv. utanrrh., og er að sjálfsögðu afstaða ríkisstjórnar Íslands, sé betur til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á framvindu þessara mála ef afstaða Íslands skiptir svo miklu máli.

Ef við hins vegar víkjum að samskiptum okkar við Evrópusambandið og aðildarríki þess innan Evrópska efnahagssvæðisins liggur fyrir það viðfangsefni að taka til við þróun samningsins sem skýrt var í upphafi, þegar hann var hér á hinu háa Alþingi til umfjöllunar á sínum tíma, að hefði þann kost umfram aðra slíka að hann gæti þróast. Til þess þarf viðræður samningsaðilanna. Það sem krefst þess að við förum fram á slíkar viðræður og komum þeim áfram er að sjálfsögðu það að hlutverk stofnana innan sambandsins hefur breyst og stofnanakerfið allt. Þær stofnanir sem okkur var tryggður aðgangur að, aðgangur og áhrif, hafa misst þau hlutverk sem þær höfðu þá, hlutverkið er komið til annarra stofnana sem við eigum að mínu viti samkvæmt ákvæðum samningsins að fá slíkan aðgang að.

Það skiptir okkur miklu máli að þær bókanir sem eru veigamestar fyrir okkur, sérstaklega bókun 9, fái að þróast eins og samningurinn sjálfur. Einungis þannig kemur það til móts við hagsmuni okkar að útvíkka eða breikka tollfrelsisákvæðin sem við nutum við inngönguna í Evrópska efnahagssvæðið, að þau nái til fleiri vöruflokka, sérstaklega til fleiri tegunda sjávarafurða. Sumt af þessu blasti að vísu við þegar við gerð samningsins en var þá ekki eins mikilvægt í okkar efnahagslegu hagsmunum og það er orðið nú, t.d. varðandi síldarafurðir. Aðrar afurðir urðu einfaldlega að víkja vegna hagsmuna sem þá þóttu vera meiri.

Það skiptir líka máli fyrir okkur eins og hér hefur verið nefnt að væntanleg er stækkun sambandsins, tilkoma nýrra Evrópusambandsríkja sem við þurfum að geta átt jafngreið og eðlileg viðskipti við og við höfum haft til þessa. Þá tel ég rétt að við bendum á það sem viðhaft hefur verið, ekki alltaf en oftast, við slík tilvik að Evrópusambandið hafi yfirtekið skuldbindingar nýrra aðildarríkja við ríki utan sambandsins. Það hefur oft verið gert en ekki alltaf.

Ég hlýt að viðurkenna að ég get ekki talið að hugmyndir um að þróa samninginn að okkar leyti gagnvart Evrópusambandinu yfir í einhvern tvíhliða samning geti verið til mikils árangurs. Hins vegar er alveg ljóst að ef Noregur mundi færa sig úr EFTA yfir í Evrópusambandið hlyti byrði okkar mjög að breytast og upp að rísa ný viðfangsefni í því hvernig við byggjum upp bæði stjórnkerfi samningsins og eftirlitsþættina.

Ég hygg raunar að það verði svo með ný viðfangsefni að við getum ekki mikið nálgast þau í dag. Við vitum ekki hvort Noregur er á leiðinni í Evrópusambandið eða ekki, það hefur ekki meiri fótfesta fengist í því máli en áður. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að í EFTA-hlið þessa tvíhliða samnings er Noregur auðvitað miklu öflugri aðili en við, sérstaklega efnahagslega.

Það er hins vegar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að í hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu eru fólgnir bæði kostir og ókostir. Ég hef litið svo á að ókostirnir séu meiri en kostirnir, sérstaklega vegna þess að innan Evrópusambandsins gerum við ekki sjálf samninga við ríki utan þess, það yrði Evrópusambandið að gera. Skipta þá miklu þeir samningar sem við eigum og viljum þróa, bæði í viðskiptum og öðrum samskiptum við ríki vestan Atlantshafsins.

Herra forseti. Ég tel skipta miklu máli að við höldum vel á þessum málum og öðrum sem hér hafa verið nefnd, ekki síst að við höldum á lofti hagsmunum Íslands í viðræðum okkar við önnur ríki og í alþjóðasamningum og á ég þar ekki síst við hagsmuni okkar sem við áttum undir niðurstöðu Kyoto-bókunarinnar sem ég tel hafa vel tekist.