Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:02:38 (2207)

2001-11-29 16:02:38# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það á eftir að koma í ljós hvort nauðsynlegt er að breyta í einhverju orðalagi EES-samningsins í sambandi við okkar mikilvægustu hagsmunamál. Það liggur ekki fyrir á þessu stigi.

Hins vegar er ljóst að ef þörf er á því þá er þetta eina tækifærið sem við höfum vegna þess að viðkomandi samningur, þ.e. um stækkunina, verður borinn undir þjóðþing allra aðildarríkjanna. Það eru engar líkur á því að svo verði gert aftur í nánustu framtíð. Að öðrum kosti er algjörlega vonlaust að fá þarna einhverjar breytingar.

Ef Evrópusambandið telur að það geti gengið að því sem við biðjum um, án þess að gerðar séu orðalagsbreytingar, þá er vel. Hins vegar er ljóst að trúlega mun þurfa að gera ákveðnar orðalagsbreytingar vegna Maastricht- og Amsterdam-samninganna. En við erum ekkert að fara fram á það. Það er hægt að gera ýmislegt á grundvelli samningsins en samningurinn nýtur minnkandi athygli. Það er vandinn.

Það má kannski geta þess að Lamy, einn af framkvæmdastjórum sambandsins, sagði nýlega að fríverslunarsamningurinn sem Evrópusambandið gerði við Mexíkó væri langmikilvægasti og metnaðarfyllsti samningurinn sem Evrópusambandið hafi nokkurn tíma gert. Þetta voru hans orð. Chris Patten sagði fyrir nokkru í Noregi, sem var nokkuð athyglisvert, að eftir stækkunina yrði erfiðara að taka tillit til sérþarfa EFTA-ríkjanna.

Þetta eru ummæli sem við þurfum að taka mið af þegar við fjöllum um þessi mál og m.a. gefa þessi ummæli okkur í utanríkisþjónustunni tilefni til að vera alveg sérstaklega á varðbergi.