Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:39:21 (2226)

2001-11-29 16:39:21# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög gott yfirlit og góða ræðu um utanríkismál. Ég get tekið undir með honum svo varðandi þau miklu áhrif sem hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafa haft á efnahagslíf heimsins og þá ekki kannski síst hér á Íslandi þar sem ferðamennska hefur orðið fyrir miklu áfalli og erfitt að sjá hvernig þau fyrirtæki muni rísa undir því á næsta ári. Afleiðingarnar hafa þegar komið fram. Það hefur líka komið fram í vantrú fólks á getu sína til að verja lönd sín fyrir slíkri vá og öryggishugmyndir almennt í heiminum.

Ég vil lýsa yfir ánægju minni með hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hafa tekið undir með Bandaríkjamönnum og Bandaríkjaforseta um það hvernig ætti að taka á þeim hryðjuverkamönnum sem eru ábyrgir fyrir aðgerðum sem þessum. Ég vil segja það sem mína skoðun að Bandaríkjaforseti hefur gengið vel fram í því að sameina þjóðir heimsins um þær aðgerðir sem nú hafa skilað heilmiklum árangri og ljóst að verið er að brjóta á bak aftur þau hryðjuverkasamtök sem hafa notið skjóls í Afganistan og ég held að öll heimsbyggðin fagni því. Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi árangur skyldi nást svo fljótt þó að allir geri sér ljósa grein fyrir því að þessi barátta er ekki unnin með þessu eina stríði heldur er þetta langvarandi eins og margoft hefur komið fram.

Hæstv. utanrrh. kom í ræðu sinni inn á marga liði sem eru mjög mikilvægir fyrir stöðu Íslands í framtíðinni, og sérstaklega inn á stöðu evrunnar. Umræðan hefur snúist út í það hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Ég segi fyrir mína parta að innganga í Evrópusambandið er í sjálfu sér alltaf til umræðu og til skoðunar en eins og staðan er núna get ég ekki séð neina leið til að Íslendingar geti sætt sig við það að ganga inn í Evrópusambandið þó að ekki væri nema bara vegna sjávarútvegshagsmuna okkar.

Það kom mér mjög á óvart að heyra formann Samfylkingarinnar segja hér áðan að það yrði ekki meira afsal á sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar að ganga í ESB en vera í hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég var mjög hissa á að það skyldi koma fram nú um fyrirvara því hv. þm. tók það ekki fram í því andsvari að hann undanskildi sjávarútvegshagsmuni þjóðarinnar.

Ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að reyna að leiðrétta það seinna í andsvari sínu. En það er ljóst að ef við göngum í Evrópusambandið undir þessum skilyrðum erum við búin að afsala okkur þeim rétti að stjórna veiðunum og ekki síst að stjórna því hvernig stofnarnir eru nýttir.

Það er ljóst að Evrópusambandinu hefur alls ekki tekist að halda stofnstærðum í veiðanlegu ástandi nema kannski í örfáum tilfellum en eins og Eystrasaltsstofnarnir líta út í dag eru fiskstofnar í Eystrasalti og í Norðursjó nánast hrundir. Það er nánast ekkert eftir. Fiskveiðikvótar Breta voru allir sendir til Spánar. Þannig hefur ekki náðst að halda utan um kerfið svo að trúverðugt sé og sjálfsákvörðunarréttur okkar þá í engu virtur ef til skyldi koma.

Ég hef aftur á móti heyrt að ýmsir ábyrgir aðilar hafi velt fyrir sér þeim möguleika að við tækjum upp evruna. Ég sé ekki hvernig það er hægt öðruvísi en að við göngum í Evrópusambandið en eigi að síður hafa ýmsir aðilar talað um tengingu við evruna. Mig langaði til að spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann gæti útskýrt hvernig hann teldi að íslenskt efnahagslíf liti út í dag ef við værum tengd evrunni.

Ég hef heyrt þá skoðun margra að með tengingu við gjaldmiðla sem eru með svona gríðarlega stórt efnahagskerfi á bak við sig mundu kostir okkar sem sjálfstæðs ríkis ekki nýtast --- gjaldmiðill okkar mundi ekki nýtast til að stjórna efnahagslegum sveiflum sem við gætum gert betur með því að hafa stjórn á gjaldmiðlinum og ráða einhverju um það hvernig hann hreyfist miðað við þann efnahagslega takt sem er í þjóðlífinu. Og vegna þess að umræðan hefur snúist mikið um evruna hefði mig langað að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann sæi stöðuna fyrir sér í dag ef evran væri gjaldmiðill okkar og við tengdumst þá Evrópugjaldmiðli alfarið.

[16:45]

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. um eitt annað atriði, þ.e. hvernig hann sér þann árangur sem hefur náðst við það að skipta upp Vestur-Evrópusambandinu. Því var skipt í tvennt þannig að hluti verkefna Vestur-Evrópusambandsins hefur verið fluttur yfir til Evrópusambandsins og svokölluð Petersberg-verkefni flutt yfir í sérstaka stofnun sem sett hefur verið á fót um öryggismál Evrópusambandsins. Samfara þessari breytingu og uppskiptingu Vestur-Evrópusambandsins er hugmyndin sú að koma upp sérstökum Evrópuher sem hefði um 60 þúsund manns á að skipa ásamt öðru sem Evrópusambandsríkin hafa hugsað sér að leggja til sameiginlegs varnarhers eða herafla sem mundi geta tekið á hryðjuverkum m.a. eða málefnum sem snúa að öryggi og varnarmálum Evrópusambandsins. Hinar svokölluðu hraðsveitir hafa ekki enn litið dagsins ljós.

Mér hefur fundist að margir óttist að þessi skipting hafi ekki náð þeim árangri sem ætlast var til, þ.e. að styrkja Evrópu. Ég er ekki að segja að það takist ekki, en alla vega hefur að mínu áliti hægt verulega á þessari uppbyggingu og við sitjum núna uppi með frekar veika stöðu Evrópusambandsins að þessu leyti. Þeir eru með þessi varnar- og öryggisverkefni, Petersberg-verkefnin, en aftur á móti er Brussel-samþykktin enn þá hjá Vestur-Evrópusambandinu. Þetta hefur að mörgu leyti splundrað upp stöðunni eða skipað Evrópuríkjunum í flokka vegna þess að Evrópusambandið vildi ekki tryggja þeim ríkjum sem ekki eru í Evrópusambandinu en í NATO beinan aðgang að ákvarðanatöku í aðgerðum Evrópusambandsins almennt varðandi Petersberg-verkefnin.

Fram komu sérstaklega hávær mótmæli Tyrkja og ég heyri ekki annað en Tyrkir séu enn mjög óánægðir með það hvernig Evrópuríki utan Evrópusambandsins en inni í NATO voru hantéruð að þessu leyti.

Ég veit að hæstv. utanrrh. lagði sig mjög fram um að tryggja stöðu Íslands eftir þessa breytingu og sótti marga fundi til þess að ná sem allra mestu út úr því þannig að aðkoma okkar að ákvarðanatöku Evrópusambandsins í þessum verkefnum yrði sem skjótust og nákvæmust, að hún yrði á sem hæstu plani. Mig langar til að vita hjá hæstv. ráðherra og ráðuneytinu hvort honum finnist að þeir samningar sem náðust hafi virkað eins og til var ætlast.

Ég veit að það var ekki meining Evrópusambandsins eða þeirra ríkja sem ákváðu þessa skiptingu að veikja varnarkerfi Evrópu eða veikja NATO. Ég hef ekki trú á því að það hafi gerst enn þá. En ég hef þá trú að ef þetta verði í tvennu lagi og óánægja Evrópuríkjanna og Tyrklands verði viðvarandi, þá gæti þetta gerst þó síðar væri.

Ég á ekki von á öðru en að reynt sé að leysa þessi mál á þann hátt að árangur náist. Auðvitað hefur mjög margt breyst með því stríði eða með því sem gerst hefur núna á síðustu mánuðum í Afganistan og við þær aðgerðir sem hafa verið notaðar til þess að ná árangri við það. Þar hefur Tyrkland sem eitt af stærstu ríkjum NATO gegnt mjög veigamiklu hlutverki og ég á ekki von á öðru en að það hlutverk komi til með að skipta máli í þeirri niðurstöðu sem næst í þessu máli.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir ágæta ræðu hans.