Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 16:52:52 (2228)

2001-11-29 16:52:52# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum sammála um að ráðherraráðið í Evrópusambandinu hefur farið óvarlega í úthlutun kvóta í öllum fisktegundum á hafsvæðum sínum og það er ákveðin ástæða, held ég, fyrir því. Fiskveiðar skipta engu máli í Evrópusambandinu. Þetta eru svo stór þjoðríki og aðrir hagsmunir eru svo miklir en veiðarnar eru svo lítið brot af öllu þessu hagkerfi að það fær ekki neitt rúm hjá þessum risa.

Það held ég að geti einmitt verið vandamálið hjá okkur, þ.e. af því þetta eru svo ótrúlega miklir hagsmunir hjá okkur miðað við þeirra að okkar vægi í að koma sjónarmiðum okkar að og áhyggjum sé svo óskaplega lítið að hagsmunir okkar yrðu fyrir borð bornir. Við það held ég að menn séu fyrst og fremst hræddir.

Ég held að allir geri sér grein fyrir því að samstarf okkar við Evrópu er gríðarlega mikilvægt. Spurningin er sú: Getum við ekki haldið því sambandi með Evrópska efnahagssvæðinu? Ég hef ekki heyrt í raun neinn segja að það sé ekki hægt.

Hæstv. utanrrh. hefur sagt að endurnýja þurfi þennan samning að sumu leyti og skýra hann betur og ná fram þeim markmiðum sem með honum voru sett. Ég er alls ekki vonlaus um að við náum því fram sem menn ætlast til. En ég held varðandi fiskveiðarnar að þetta sé bara svo stór þáttur og eftir því sem mér er sagt mun Rómarsáttmálinn aldrei gefa tækifæri til þess að við fáum neina sérsamninga fyrir Íslendinga nema til skamms tíma.