Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:01:50 (2232)

2001-11-29 17:01:50# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þetta svar. Þetta er kannski dálítið í þeim anda sem margir óttuðust, að Evrópusambandið yrði ein blokk í varnar- og öryggismálaumræðum sínum sem er dálítið annað en var. Þau mál voru rædd innan NATO þegar um Evrópuríki var að ræða eða þá innan Vestur-Evrópusambandsins sem hafði þetta hlutverk. Og þar mættust allir sendiherrar Evrópuríkjanna innan NATO og þar voru þessi mál til umræðu.

Út af fyrir sig er afskaplega skiljanlegt að Tyrkir skuli enn vera ósáttir við stöðuna. Og ég heyri á hæstv. utanrrh. að það ferli sem hugsað var sem samskiptaferli virkaði ekki nema til aðgerða kæmi. Öll umræða milli utanríkisráðherra Evrópusambandsins færi sem sagt fram innan Evrópusambandsins meðan ekkert annað gerðist, eða þá að eitthvað gerðist sem þyrfti að taka ákvörðun um og kæmi þá inn í NATO.

Það er svo sem ekkert við þessu að segja, herra forseti. Þetta er staða sem við stöndum frammi fyrir. Ég er að fara á fund Vestur-Evrópusambandsins núna um helgina en þar verður fundað um þessi mál. Ég geri ráð fyrir að stefna Íslendinga verði áfram sú að taka fullan þátt í því samstarfi sem hefur verið mjög farsælt og þær 29 þjóðir sem þar eiga aðild mæti til skrafs og ráðagerða. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. styðji það.