Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:09:01 (2235)

2001-11-29 17:09:01# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem mér gafst ekki tími til að fara yfir í fyrri ræðu minni eins og ég hefði gjarnan viljað. Ég ætla að reyna að bæta þar lítillega úr án þess þó að það sé markmið endilega að lengja mikið þessa umræðu sem þegar hefur staðið drjúga stund.

Fyrra atriðið sem ég í aðalatriðum ætlaði að fjalla um lýtur að stöðu Evrópumála. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson innti mjög eftir því að menn gerðu þar grein fyrir sjónarmiðum sínum og það er vissulega vel. Ég hygg að það sé vandræðalaust alveg af minni hálfu að gera það þannig að sæmilega skýr mynd eigi að geta fengist af því fyrir hvað Vinstri hreyfingin -- grænt framboð stendur í þeim efnum enda höfum við fyrir löngu síðan lagt það fram í m.a. formi þáltill. hér á Alþingi með tiltölulega skýrum hætti.

Þeir sem hafa til þess vilja hafa getað lesið sér til um það, bæði stefnumótunina sjálfa í tillögugrein sem og rökstuðning í ítarlegri greinargerð með þessu þingskjali. Af okkar hálfu má segja að þetta hafi verið okkar hvíta bók í Evrópumálum um tveggja ára skeið.

Þessi rökstuðningur við greinargerð var síðan endurskoðaður með hliðsjón af nýjum upplýsingum sem fyrir lágu á vordögum 2000, ef ég man rétt, þegar hæstv. utanrrh. skilaði sinni ágætu þykku og miklu skýrslu til Alþingis. Til annarra gagna var líka litið eins og mats á úttekt á kostum og göllum þess að taka upp evru fyrir Ísland og fleira mætti þar nefna.

Ég vísa til þess sem ég áður sagði um að það er áhugavert mál í sjálfu sér, samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, hvort í gang fást alvöru samningaviðræður um uppfærslu á honum sem hafa bæði formlegt eða praktískt gildi og líka pólitískt því ég skildi hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu þannig að markmiðið væri að ná hvoru tveggja inn.

Hitt er líka ljóst að mikilvægt er að menn átti sig á því hver markmið manna með slíkum leiðangri eru og hvort það er full samstaða á bak við þann leiðangur af hálfu EFTA-ríkjanna. Ég minni á að staðan í Noregi er nokkuð flókin um þessar mundir eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar þar sem svo er um hnúta búið að í raun er það sjálfkrafa stjórnarslitaefni að hrófla við þeirri stöðu sem Noregur hefur núna gagnvart Evrópusambandinu. Það er yfirlýst, og gott ef ekki beinlínis samningsbundið, milli flokkanna að tæki einhver þeirra upp áróður eða baráttu fyrir breytingum á stöðu Noregs og þá með aðild í huga jafngildi það því að segja sig frá stjórnarsamstarfinu.

Ég býst við að það sé þannig nokkuð vandasamt að eiga samskipti við Norðmenn að þessu leyti til því allir sem til norskra stjórnmála þekkja vita að staðan er mjög viðkvæm í samstarfi þeirra flokka sem hafa í raun og veru í grundvallaratriðum ólíkar áherslur í Evrópumálum, annars vegar flokkur forsætisráðherra og hins vegar hinn stóri samstarfsaðilinn, hægri menn.

Um evruna og gildi hennar þarf ég svo sem ekki að bæta miklu við það sem ég áður hef sagt. Það eru auðvitað engin efnahagsleg tíðindi að evran sem slík er að taka gildi nú um áramótin enda fyrir löngu búið að festa allar breytur sem lúta að upptöku evrunnar. Það hefur átt sér langan aðdraganda. Menn geta einfaldlega ekki tengt þetta við íslenskan veruleika þótt með skýrum og skilmerkilegum fyrirvörum væri, þetta er auðvitað ekki neitt sem við getum verið að ræða hér uppi á Íslandi með möguleg áhrif á stöðu okkar í huga á allra næstu tímum. Það er augljóst mál að það yrði langt árabil í öllu falli þangað til að slíkt gæti farið að hafa áhrif hér. Undangengnar viðræður um aðild að Evrópusambandinu, samningar um það, kosningar sem því yrðu samfara, kannski tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla, fyrst um samninginn og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla í formi kosninga um breytingar á stjórnarskrá. Síðan tæki væntanlega við aðlögunartíminn að evrunni á meðan það væri mælt að við uppfylltum þau skilyrði sem gerð eru til nýrra aðildarríkja.

Mér er ekki kunnugt um annað en að ætli menn að taka upp evru fari þeir inn í sambærilegt prógramm og þau lönd gerðu sem ákváðu það á sínum tíma, og þurfa þá væntanlega að uppfylla öll skilyrðin. Þau kunna að vísu að verða eitthvað rýmri þá því umræður eru einmitt uppi um að breyta þeim vegna þess að ákveðin Evrópuríki eru að lenda í vandræðum gagnvart tilteknum þáttum eins og verðbólgu og skuldum.

[17:15]

Varðandi efnislega afstöðu til málsins hefur ekkert breyst í mínum huga í þeim efnum, þessu fylgja bæði kostir og gallar. Ég deili meira skoðunum með dönsku hagfræðingunum sem öllum á óvart færðu fyrir því rök að sennilega væri heldur óhagstæðara en ekki fyrir Dani að taka upp evruna. Hins vegar væri þetta pólitísk spurning. Þetta væri miklu meira pólitísk en efnahagsleg spurning og það held ég að sé mergurinn málsins. Þetta er í reynd spurning um það hvort menn ætla að verða þátttakendur að öllu leyti í samrunaferlinu í Evrópu og myndun hins evrópska ríkis með sameiginlegum gjaldmiðli, efnahagsstefnu, ytri landamærum, lögreglu og jafnvel her. Á því höfðu Danir ekki áhuga samanber það að þeir felldu evruna, og ég fullyrði að hin pólitísku rök vógu þar þyngra en endilega hin efnahagslegu. Um þau var mjög deilt og sitt sýndist hverjum. Flestir voru sammála um að það væri hins vegar mjög sterk pólitísk yfirlýsing um að Danir ætluðu sér að verða samferða í samrunaferlinu ef þeir tækju upp evruna. Þar hafa Danir verið tregir í taumi eins og kunnugt er, og eitt vinsælasta og kannski áhrifamesta slagorðið, endurtekið í dönskum kosningum, um nálgun við Evrópusambandið hefur verið þetta fræga: ,,Nej tak, ikke mere union.`` Þeir vilja ekki meira sambandsríki.

Stækkun Evrópusambandsins varðar okkur auðvitað að ýmsu leyti vegna þess að hún markar breytingu á stöðu okkar gagnvart þeim ríkjum sem ganga þar inn, eins og við höfum rætt hér fyrr í dag, en hún varðar okkur líka vegna þess að stækkun Evrópusambandsins hefur auðvitað mikil áhrif á þetta fyrirbæri sem við erum samningsbundin. Það er auðvitað alveg augljóst mál --- bæði liggur það þegar fyrir í Nice-niðurstöðunum en það liggur líka í loftinu og í allri umræðu um málið núna --- að stækkunin mun hafa mjög mikil áhrif og það sér engan veginn fyrir endann á þeim. Þjóðverjar eru þegar lagðir upp með baráttu fyrir því að næstu skref verði undirbúin um frekari samruna og ríkismyndun í Evrópu. Það er athyglisvert að í raun og veru allir áhrifamestu talsmenn þýskra stjórnmála um þessar mundir, með Joschka Fischer utanríkisráðherra (ÖS: Flokksbróður.) --- já, að sumu leyti er hann kannski flokksbróðir ræðumanns --- í broddi fylkingar með forsætisráðherra og jafnvel helstu talsmenn stjórnarandstöðuflokka tala Þjóðverjar ákveðið fyrir ýmsum hugmyndum um enn þá frekari samrunaþróun í Evrópu.

Þetta finnst mér að menn verði að hafa í huga líka þegar þeir ræða um stöðu Íslands og spurningu um evru eða ekki evru og hvort kostir eða gallar vegi þyngra í augnablikinu gagnvart því að ganga í Evrópusambandið. Evrópusambandið er ekki kyrrstætt fyrirbæri. Það er á fullri ferð og það stefnir meira og minna í eina átt, það stefnir í átt til sambandsríkis, federalísks ríkis, og það tekur sífellt á sig fleiri og fleiri einkenni slíkra ríkja. Af augljósum ástæðum hefur það ekki eitt sameiginlegt tungumál en að því slepptu vantar ekki orðið mikið upp á að þetta fyrirbæri sé að ná öllum helstu einkennum slíkra sameiginlegra ríkja. Hæstv. utanrrh. nefndi m.a. réttilega hér áðan að það gætir sífellt ríkari tilhneiginga til þess af hálfu Evrópusambandsins að koma fram sem eitt og hafa aðildarríkin í bakgrunni, á aftari bekkjunum, þegar það blandar sér í utanríkismál eða hvað það er.

Herra forseti. Það skiptir svo líka máli hvað úr þessu öllu verður í sambandi við viðskiptakjör okkar. Eins og við ræddum fyrr í dag skiptir auðvitað máli hvernig tekst til með það verkefni á næstu mánuðum og missirum að semja um stöðu okkar gagnvart þeim Austur-Evrópuríkjum eða nýju aðildarríkjum sem nú eru að banka á dyr Evrópusambandsins. Sífellt fleira bendir til að þau muni koma inn í stærri hópi heldur en upphaflega var kannski ráð fyrir gert og þar af leiðandi er málið enn þá afdrifaríkara fyrir okkur.

Stækkunin mun hins vegar reynast Evrópusambandinu --- það held ég að allir séu sammála um --- alveg gríðarlegt verkefni og það eru mörg óleyst vandamál þar enn þann dag í dag. Mér vitanlega er engin niðurstaða komin í það t.d. hvernig taka eigi Pólland með sinn gríðarlega landbúnað og milljónir bænda inn í Evrópusambandið og landbúnaðarstefnu þess. Hvernig á að samræma það tvennt, að halda áfram fullum styrkjum til hinna ríku bænda í Vestur-Evrópu og taka Pólverja inn um leið án þess að þeir njóti þá sambærilegra kjara? Það stendur jú ekki til, a.m.k. ekki fyrstu 5--10 árin, jafnvel 15. Samt á að reyna að halda í grundvallarprinsippin um stöðugleika og þau markmið að jafna lífskjör innan sambandsins. Þetta er ekkert áhlaupaverk, herra forseti, sem þarna blasir við mönnum.

Síðast þegar ég komst í aðstöðu til að spyrja áhrifaaðila á vettvangi Evrópusambandsins um hvernig stæði með þessi mál voru svörin alveg nákvæmlega þau sömu og við í Evrópunefnd Norðurlandaráðs höfðum fengið í tví- eða þrígang áður, að þetta væri óleyst mál. Það var vissulega viðurkennt að þetta væri eitt af því allra erfiðasta. Við skulum bara draga andann rólega og bíða og sjá hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig.

Ég held að í aðalatriðum standi rökin óhögguð sem við höfum fært fram fyrir afstöðu okkar, og ég vitna aftur í þá grg. með till. til þál. sem ég hef hér nefnt um mótun stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum. Og af því að menn hafa innt eftir þeim nefni ég í fyrsta lagi hiklaust afsal sjálfstæðis og fullveldis og glataða sérstöðu landsins. Og ég sný þeim hlutum akkúrat öfugt við formann Samfylkingarinnar, það er ekki nokkur minnsti vafi á því í mínum huga að það er allt annað og miklu meira fullveldisafsal fólgið í aðild að Evrópusambandinu, fyrir utan að það er ekki aðgerð sem auðvelt væri að taka aftur eða segja sig frá ef svo bæri undir. Þar koma inn þættir sem væru algjörlega nýir og til viðbótar því sem fyrir er, t.d. hlutur dómstóla, lögskýringar og annað því um líkt.

Í öðru lagi er augljóst mál að inngöngu í Evrópusambandið fylgja verulega skertir möguleikar til sjálfstæðrar efnahagsstjórnunar. Við getum velt fyrir okkur hversu hönduglega okkur hafi stundum tekist til í þeim efnum en svona er það nú.

Ég tel að hagsmunum íslensks sjávarútvegs yrði fórnað eða þeim stefnt í stórhættu og það yrði ekki bara út frá því augnabliki sem gengi í garð þegar við gengjum þarna inn. Ég held að enginn hafi haldið því fram að þann dag fylltust Íslandsmið af erlendum togurum. En það er sú staða sem við komum okkur í gagnvart framhaldinu því það þarf enginn að fara í neinar grafgötur um að þegar í stað hefst mikill þrýstingur frá þeim þjóðum sem eiga mikla ónýtta flota að fá hér einhverja hlutdeild og það mál yrði uppi á borðum í samningaprútti framtíðarinnar.

Ég nefni í fjórða lagi að það er allt sem teiknar til að þetta yrði umtalsvert áfall fyrir íslenskan landbúnað nema kannski helst sauðfjárrækt sem gæti sogið út styrki nokkurn veginn til að jafna þá stöðu sem hún hefur í dag. Það gæti orðið mjög tvíbent fyrir ferðaþjónustu hvernig hún kæmi út úr þessu. Við gengjumst undir þetta fjarlæga og miðstýrða Brussel-vald sem er gagnrýnt fyrir ólýðræðislega ákvarðanatöku, við gengjum inn fyrir að ýmsu leyti varhugaverða tollmúra út á við, þ.e. yrðum hluti af tollmúrum Evrópusambandsins og þessu fylgir síðast en ekki síst gríðarlegur kostnaður. Það er talið að hann yrði í kringum 8 milljarðar miðað við óbreytta stærð og jafnvel 10--12 milljarðar eftir stækkun. E.t.v. kæmi um helmingur af því til baka ef vel tækist til í að sjúga hingað styrki. Á mjög hraðri yfirferð, herra forseti, er þetta til að nefna nokkur af þeim veigamiklu rökum sem ráða því að við teljum ekki æskilegan kost fyrir Ísland að vera að horfa til aðildar að Evrópusambandinu, og þvert á móti eigi menn að gæta hagsmuna sinna á öðrum grundvelli hér til næstu ára litið.