Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:24:35 (2236)

2001-11-29 17:24:35# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn og utanrrn. vinnur fyrst og fremst að því að gæta hagsmuna Íslands á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Hins vegar er jafnframt nauðsynlegt að ræða þá þróun sem á sér stað í Evrópu og þá framtíð sem við sjáum inni. Þess vegna er mjög mikilvægt að umræða um það sem er að gerast í Evrópusambandinu eigi sér stað. Það er líka mikilvægt að við ástundum þá umræðu á grundvelli ákveðinna staðreynda sem við kunnum að vísu að hafa mismunandi mat á.

Ég heyrði að hv. þm. hefur það mat að Evrópusambandið stefni að því að verða sambandsríki og það eru margir sem hafa það mat. Hann er ekki einn um það. Ég er hins vegar ekki sammála því mati og ég rökstyð það með því að eftir því sem ríkin verða fleiri og eftir að stækkunin á sér stað er miklu ólíklegra en nokkru sinni áður að samkomulag muni takast um það. Ég tel að með stækkuninni verði enn þá líklegra að Evrópusambandið verði það ekki.

Hins vegar er ljóst að Evrópusambandið hefur stefnt að því að hafa sem mest sameiginlega utanríkisstefnu. Það er samt ekki allt sem bendir til þess að þar sé samkomulag. Við tökum t.d. eftir því núna að það er ekki talsmaður Evrópusambandsins sem fer um heiminn út af Afganistan. Það hefur fyrst og fremst verið Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Það er ekki Solana, talsmaður Evrópusambandsins í utanríkismálum, þannig að það er misjafnt hvernig þetta kemur út.

Hins vegar álít ég að það hafi verið mikið gæfuspor að Evrópusambandið hafi t.d. komið sér saman um stefnuna að því er varðar Ísrael og Palestínu og tel að það hafi styrkt friðarferlið á því svæði og það hljótum við að viðurkenna.