Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:31:17 (2239)

2001-11-29 17:31:17# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta þvert á móti vera einmitt mjög áhugaverð og mikilvæg umræða því að ég held að það skipti miklu máli að við reynum að greina hvernig landið liggur þarna og hvert líklegt er að þetta batterí þróist, eiginlega burt séð frá því hvaða viðhorf við höfum til þess nákvæmlega hvernig við eigum að reyna að búa um okkar samskipti. Ég tel að við séum almennt öll Evrópusinnar í jákvæðum skilningi og bestu merkingu þess orðs, að við viljum gott samstarf Evrópuþjóða og við viljum vera þátttakendur í því, en okkur greinir á um hvort við eigum að byggja þá samvinnu á þeim grundvelli að við göngum í þetta samband eða þá einingu sem þarna er að verða til.

Það er að vísu rétt að ef smáríkin stæðu öll saman þá hafa þau sterka stöðu, en það gera þau sjaldan. Það er nákvæmlega eins og menn sögðu hér alltaf: Já, en landsbyggðarþingmenn eru með meiri hluta á Alþingi. En hversu oft hafa menn hafa séð slíkan meiri hluta birtast hér í atkvæðagreiðslum? (Gripið fram í.) Ræðumaður hefur verið hérna í 19 ár og ég held að ég hafi aldrei séð hann birtast þannig að allir landsbyggðarþingmenn allra flokka stæðu saman en suðvesturhornsþingmennirnir á móti. Það gerist ekki þannig. Og alveg eins er þetta innan Evrópusambandsins. Ég held að það gerist mjög sjaldan að öll smáríkin sameini krafta sína og standi eins og ein blokk á móti þeim stóru. Og þau stóru eru auðvitað mjög dugleg við að búa sér til bandalög og versla og hafa til þess afl og burði og ná þannig ýmsu fram.

Gleymum ekki því að Evrópusambandið er eins og öll önnur kerfi af þessu tagi, það lifir sjálfu sér í ríkum mæli og það hefur mikla burði til þess að reka áróður fyrir sjálfu sér. Við Íslendingar þekkjum það, Evrópusambandið er með upplýsinga- og áróðurskontóra úti um allt og ræður til þess menn í störf. Það er auðvitað alltaf að reka áróður fyrir sjálfu sér og þar er þessi hugsun mjög sterk, að draga völdin undir Brussel og gera þetta sem öflugast og burðugast ríki. Þar kemur mótvægishugsunin upp sem hæstv. utanrrh. nefndi.

Í sambandi við Norðurlöndin, herra forseti, þá minni ég á að þeim hefur nú ekki alltaf gengið vel að samræma sig og Finnar t.d. eru býsna hallir undir þessa samrunahugsun.