Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:49:12 (2241)

2001-11-29 17:49:12# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:49]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar kom fram áðan að Bandaríkjamenn hafi ekki haft umboð Sameinuðu þjóðanna til aðgerða. Þetta hefur áður komið fram hjá hv. þm. í sjónvarpsþætti en það er ástæða til að gera athugasemd við þetta vegna þess að í samþykkt öryggisráðsins, nr. 1368, í inngangi, er sérstaklega vitnað í þann viðurkennda rétt einstaklinga og samfélaga til sjálfsvarnar sem er í fullu samræmi við stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Sá réttur veitir Bandaríkjamönnum, að mati öryggisráðsins, fulla heimild til aðgerða. Ekki er hægt að skilja þetta á nokkurn annan hátt en að Sameinuðu þjóðirnar hafi gefið Bandaríkjamönnum rétt til aðgerða.