Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:57:20 (2248)

2001-11-29 17:57:20# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er heils hugar sammála Alþýðusambandinu um það að Evrópumálin eigi að vera á dagskrá. Ég held að allt samfélagið sé á því máli að við eigum að ræða tengsl okkar við Evrópu sem önnur ríki í heiminum.

Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú í flestum verkalýðssamböndum að hér sé um að ræða þverpólitískt mál sem ekki er á færi einstakra verkalýðsfélaga eða samtaka að taka afstöðu til. Menn eru einfaldlega með mjög mismunandi skoðanir á því hvort æskilegt sé að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu.

Innan Alþýðusambandsins eru mjög margir á því máli að það sé heppilegt. Aðrir eru því andvígir. Hið sama gildir innan BSRB, BHM, bankamanna, annarra samtaka. Það er á vettvangi stjórnmálanna hins vegar sem krafa er gerð um það að menn hafi skýrar línur í þessum efnum til að bjóða kjósendum upp á skýra valkosti þegar kemur til kosninga.