Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 17:59:50 (2250)

2001-11-29 17:59:50# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. talaði um að leysa málið og gaf í skyn að málið væri leyst. Það er ekki búið að leysa eitt eða neitt í reynd og ekki séð fyrir endann á atburðarásinni.

Ég vil vekja athygli á lítilli frétt í The Financial Times í dag þar sem menn eru með vangaveltur um hvar Osama bin Laden haldi sig. Talið er að hann kunni að vera í hellum nærri Tora Bora, þorpi nærri landamærunum við Pakistan. Þar eru miklir hellar og talið að hann kunni að leynast í þeim hellum. En þeir segja í Financial Times að það sé líklegt að í fórum bandarísku leyniþjónustunnar séu uppdrættir af þessum hellum. Hvers vegna? Þeir fjármögnuðu smíðina. Þeir fjármögnuðu smíði þeirra fyrir þá sem ráðið hafa ríkjum í Kabúl á liðnum árum en börðust áður við innrásarheri Sovétmanna, þ.e. frelsishetjur gærdagsins hafa verið kúgaðar til síðustu ára í Kabúl. Heimurinn er ekki alveg svona einfaldur eins og hv. þm. vill vera láta.