Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:23:16 (2256)

2001-11-29 18:23:16# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við búum yfir mismunandi söguskýringum. Einræðisríki í Austur-Evrópu féllu saman, brotnuðu innan frá en jafnframt varð lýðræðisvakning í þessum hluta Evrópu. Margir telja að sú vakning sem varð í Evrópu á 9. áratugnum og tengdist m.a. andófi milljóna manna gegn hervæðingu Atlantshafsbandalagsins hafi orðið til að styrkja samsvarandi lýðræðisöfl austan múrsins.

Ég vil spyrja hæstv. utanrrh., þegar hann segist þurfa að halda þennan fund NATO sem nú er vitað að mun kosta milli 300 og 400 millj. kr. og margir sem gera því skóna að upphæðin verði miklu hærri: Jafnvel þótt ríkisstjórnina langi óskaplega mikið að halda þennan fund, ber henni ekki siðferðileg skylda til að skoða þennan fjáraustur í víðara samhengi, þ.e. í samhengi við það sem verið er að skera niður?

Ég leyfði mér hér um daginn að vísa á biðraðir fatlaðra eftir húsnæði. Einhver hafði á orði að það væri ósiðlegt að blanda þessum ólíku málaflokkum saman. Mér finnst það ekki. Þetta eru nefnilega sömu skattkrónurnar sem við erum að takast á um hvernig við ráðstöfum. Ég er andvígur því að ráðstafa þeim í þennan dýra NATO-fund í vor á sama hátt og ég taldi þessa dýru fjárfestingu í Japan óráðlega. Ég vildi láta leysa það viðfangsefni á ódýrari hátt.