Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:32:08 (2260)

2001-11-29 18:32:08# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:32]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, maður sér um leið og maður kemur að byggingunni í Berlín að hún er dýr. Hún er glæsileg en hún ber það líka með sér að vera dýr.

Ég er ekki endilega að lýsa yfir hrifningu á að hafa farið einhverja dýra leið. Ég geri mér vel grein fyrir að þessi útfærsla vekur athygli en ég býst við að ég hefði verið jafnhrifin þótt það hefði verið í ódýrara húsi.

Ég tek líka undir það að litla húsið okkar inni í þessum sameiginlega ramma er mjög lítið og eftir á, eftir að hafa kynnst þessu, hefði ég stutt það að það hefði verið haft stærra. Nóg um það.

Ég vil líka í lokin nefna friðargæslumálin. Utanrrn. hefur unnið ágæta skýrslu um stefnumörkun í friðargæslunni. Ég hef fyrr í ræðu minni nefnt samvinnu Norðurlanda á þessu sviði sem mér finnst mikilvæg og ég legg mikla áherslu á það og læt það verða lokaorð mín í þessari umræðu að Ísland feti þá braut að skoða jafnréttismálin, að reyna að fá konur til starfa í friðargæslunni þannig að þegar komi að því að Ísland sendi fólk í uppbyggingarstarf sem getur verið svo viðkvæmt í fjölskyldum þessara fjarlægu landa með allt aðra hugsun og allt önnur samskipti kynjanna en eru hjá okkur höfum við á að skipa hæfileikafólki af báðum kynjum. Það verða mín hvatningarorð í lokin á þessari umræðu.