Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:34:02 (2261)

2001-11-29 18:34:02# 127. lþ. 40.1 fundur 176#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því að mikilvægt sé að fá konur til þessara starfa og við höfum lagt á það áherslu. Við höfum t.d. lagt á það sérstaka áherslu í Bosníu --- eitt sinn voru fjórir einstaklingar meðal Breta í þeirra sveit, tveir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar, og það voru allt saman konur og þær stóðu sig afskaplega vel. Það er mikil þörf fyrir konur til lögreglustarfa bæði í Bosníu og Kosovo vegna aðstæðna sem þar eru en okkur hefur ekki gengið nægilega vel að fá konur til þeirra starfa. Við höfum hins vegar getað lagt jafnréttismálum lið í þessum löndum, sérstaklega í Kosovo, og höfum verið þar með einstaklinga á vegum UNIFEM sem við höfum kostað sem hafa sérstaklega starfað meðal kvenna í Kosovo.

Okkur hefur líka tekist að styrkja starf kvenna í Bosníu en þar er afskaplega mikil þörf fyrir það. Konur í þessum löndum hafa búið við ofsóknir vil ég leyfa mér að segja þó að það sé ekkert á við það sem er í Afganistan, ofsóknir sem við gætum aldrei þolað í okkar samfélagi, og eitt af því mikilvægasta sem þarf að gera í mörgum þessum samfélögum er að bæta réttindi og stöðu kvenna. Á því sviði eigum við Íslendingar sérstaklega að beita okkur að mínu mati því að þar getum við gert mikið gagn.