Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001, kl. 18:58:21 (2269)

2001-11-29 18:58:21# 127. lþ. 40.4 fundur 321. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn (umhverfismál)# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 127. lþ.

[18:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þeirri þáltill. sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001, um breytingu á XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins um urðun úrgangs.

Gerð er grein fyrir efni þessarar ákvörðunar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri gerð sem hér um ræðir. Þessi ákvörðun kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt EES-samningnum verða þær skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.

Sú málsmeðferð sem hér er viðhöfð er í samræmi við þá tilhögun sem hefur verið tekin upp á hv. Alþingi og er hv. þingmönnum kunnug. Hvað varðar efnisatriði þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir nægir að meginstefnu að vísa til greinargerðar sem fylgir tillögunni auk gerðarinnar sjálfrar.

Tilskipunin fjallar um rekstrarlegar og tæknilegar kröfur varðandi úrgang og urðun hans og kveður á um ráðstafanir, aðferðir og leiðbeiningar til að koma í veg fyrir eða minnka eins og unnt er neikvæð áhrif á umhverfið, sérstaklega mengun yfirborðsvatns, grunnvatns, jarðvegs og lofts. Tilskipunin tekur til urðunar spilliefna, venjulegs úrgangs og óvirks úrgangs.

Þessa tilskipun ber að horfa á í ljósi þeirrar alþjóðlegu þróunar sem á sér stað nú um stundir þar sem ekki er síður leitað lausna í umhverfismálum í fjölþjóðlegu samstarfi en innan hvers ríkis.

Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í umhvrn. sem gerð er nánari grein fyrir í greinargerð með tillögunni. Þessi tilskipun hefur þegar komið til framkvæmda innan Evrópusambandsins. Á hinn bóginn er rekstraraðilum urðunarstaða sem eru í rekstri við gildistöku tilskipunar gert að laga sig að ákvæðum hennar innan átta ára frá lögleiðingu hennar eftir nánari reglum sem er að finna í henni.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.