Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:02:38 (2272)

2001-12-03 15:02:38# 127. lþ. 41.91 fundur 188#B alþjóðlegur dagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1992 að 3. desember ár hvert skyldi helgaður málefnum fatlaðra. Þá voru einnig kynntar grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna þar sem áhersla er lögð á jöfn lífsskilyrði og jafna þátttöku fatlaðra á öllum sviðum þjóðlífsins. Hagsmunasamtök fatlaðra um allan heim líta á þessar reglur og það að 3. desember ár hvert skuli helgaður málefnum fatlaðra sem mikilvægan þátt í baráttu sinni fyrir jöfnum rétti á við aðra þegna þjóðfélagsins, ekki síst vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar beindu þeim tilmælum til þjóðþinga aðildarríkjanna að þau tækju málefni fatlaðra til umræðu og skoðunar á þessum degi ár hvert þannig að hægt sé að meta stöðuna hverju sinni. Í ljósi þess væri eðlilegt að hæstv. félmrh. hefði í dag gefið þinginu skýrslu um stöðu mála eða að hér hefðu verið á dagskrá þau þingmál þingmanna sem lúta að réttindum og stöðu fatlaðra. Þá hefur einnig legið hér fyrir í þrjár vikur beiðni frá mér til hæstv. félmrh. um umræðu utan dagskrár um búsetumál fatlaðra en þau mál stefna í óefni miðað við þær tölur sem eru í frv. til fjárlaga.

Í frv. er aðeins gert ráð fyrir að heimili fyrir 12 einstaklinga taki til starfa á næsta ári og að þau verði rekin í u.þ.b. þrjá mánuði. Samkvæmt tölum frá því í október sl. eru hins vegar yfir 200 einstaklingar á biðlista eftir búsetu.

Hæstv. félmrh. hefur lýst því yfir að þessum biðlistum verði að útrýma á næstu fimm árum. Miðað við þær tölur sem eru í frv. til fjárlaga getur það ekki gerst. Það hefði verið eðlilegt að hæstv. félmrh. segði okkur frá því í dag, á alþjóðlegum degi fatlaðra, hvernig hann hyggst standa við þau loforð sem hann áður hefur gefið.