Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:12:57 (2278)

2001-12-03 15:12:57# 127. lþ. 41.91 fundur 188#B alþjóðlegur dagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér er til efs að á undanförnum 20 árum hafi nokkur hópur í þjóðfélaginu fengið viðlíka úrbætur í málum sínum og fatlaðir. Ég er ekki þar með að segja að ekki sé margt ógert í málaflokknum en samt ber að hafa í huga að okkur hefur einnig miðað fram á við.

Í fjárlögum ársins í ár, 2001, eru 3.820 millj. ætlaðar í málaflokk fatlaðra. Í frv. fyrir næsta ár, sem hér hefur verið til meðferðar, eru í upphaflegu frv. 4.410 millj. Þá hefur verið ákveðið að hækka ýmsa liði sem varða málefni fatlaðra við 2. umr. og þar bætast 200 millj. við, þ.e. búið er að hækka framlög til þeirra mála um 200 millj. Þar fyrir utan eru 90 millj. lagðar til málefna fatlaðra í fjáraukalögum. Þetta sýnir að við höfum svo sem ekki setið með hendur í skauti.