Alþjóðlegur dagur fatlaðra

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:14:30 (2279)

2001-12-03 15:14:30# 127. lþ. 41.91 fundur 188#B alþjóðlegur dagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þessa upptalningu hjá hæstv. félmrh. er staðreyndin sú að 23 millj. eru ætlaðar til að reka ný sambýli á næsta ári. Það er ætlað 12 einstaklingum og reksturinn á að standa í u.þ.b. þrjá mánuði. Samkvæmt þeim tölum sem hæstv. ráðherra hafði frá sérstökum starfshópi sem fór yfir þetta voru hins vegar 175 einstaklingar á biðlista eftir fastri búsetu í nóvember á síðasta ári. Á biðlista núna, í október 2001, eru alls 201 einstaklingur, sem þýðir að fjölgað hefur um tæplega 30 á biðlistunum. Þó að þarna komi til úrræði fyrir 12 einstaklinga þá er alveg ljóst að ef ekki verða gerðar verulegar úrbætur þá munu biðlistar lengjast frá því sem áætlað var. Þar með verður ekki hægt að standa við þau loforð sem hæstv. ráðherra gaf, um að biðlistunum yrði útrýmt á næstu fimm árum.

Ég má einnig til með að nefna það hér, virðulegi forseti, að 1996 og 1997 var hér þingmaður, Ásta B. Þorsteinsdóttir, sem ítrekaði þann vilja og þau tilmæli sem Sameinuðu þjóðirnar sendu öllum þjóðþingum að 3. desember yrði tileinkaður þessum málaflokki. Þess sér engan stað í dagskrá þingsins í dag, alls ekki. Það hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherra hefði lagt fram skýrslu, farið þar yfir meginreglur Sameinuðu þjóðanna og skýrt út fyrir okkur hver staða okkar er gagnvart þeim og gagnvart öðrum Norðurlöndum en í þeim samanburði er staða okkar, t.d. hvað varðar aðgengismál, framkvæmdaáætlun o.fl. afar bágborin. Ég skora á hæstv. ráðherra að gera samning um framkvæmdaáætlun vegna þessara búsetumála þannig að við getum gengið að því að á næstu fjórum árum verði þessum biðlistum útrýmt. Það þarf samninga til.