Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:19:13 (2281)

2001-12-03 15:19:13# 127. lþ. 41.94 fundur 191#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil af þessu tilefni taka fram að hinn 29. nóvember skrifaði Skarphéðinn Steinarsson, forsrn., fjárln. Alþingis svohljóðandi bréf:

,,Spurt var um sundurliðun kostnaðar vegna einkavæðingar á yfirstandandi ári, en í fjáraukalagafrumvarpi 2001 er farið fram á 300 millj. kr. fjárveitingu til verkefnanna. Upplýsingar um endurgjald til einstakra viðsemjenda varða mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra. Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, er skylt að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum, ef hann er til þess fallinn að skaða þá hagsmuni sem í húfi eru. Í því felst þá jafnframt að slíkar upplýsingar eru undirorpnar þagnarskyldu af hálfu stjórnvalda að viðlagðri ábyrgð. Á þeim grundvelli hefur ráðuneytið jafnframt heitið viðsemjendum sínum að gæta trúnaðar við meðferð þeirra. Þar eð sambærileg þagnarskylda hvílir ekki á þingmönnum eða þingnefndum telur ráðuneytið því ekki fært að veita nánari upplýsingar um það hvernig framangeind fjárhæð skiptist milli einstakra viðsemjenda.``

5. gr. upplýsingalaga hljóðar svo:

,,Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.``

Samkvæmt þingsköpum Alþingis er sérstaklega kveðið á um það í 24. gr., þar sem fjallað er um utanrmn., að nefndarmenn skuli bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á. Engin sambærileg ákvæði eru um aðrar nefndir Alþingis og hlýtur því að verða að líta svo á að utanrmn. sé bundin þagnarskyldu fram yfir það sem aðrar nefndir eru.

Í 25. gr., þar sem fjallað er um fjárln., er sérstaklega rætt um það að fjárln. skuli fá þær upplýsingar sem hún telji nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana. Mér er ekki kunnugt um annað en fjárln. hafi fengið slíkar upplýsingar. Ég lít svo á að niðurstaða forsrh. sé rétt þar sem ekki eru nein ákvæði í þingsköpum um þagnarskyldu annarra nefnda sambærileg við þau sem eru um utanrmn.