Úrskurður forseta

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:30:46 (2287)

2001-12-03 15:30:46# 127. lþ. 41.93 fundur 190#B úrskurður forseta# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Umboðsmaður Alþingis hefur lagt á það ríka áherslu að setja þurfi stjórnsýsluna í skóla. Það þurfi að skóla hana til að fara eftir þeim reglum sem um hana gilda.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, eftir að hafa hlýtt á úrskurð hæstv. forseta, að ég held að hv. forsn. ætti einnig að fara í þennan skóla. Þessi úrskurður er algert hneyksli. Ég vil taka undir það með þeim sem hafa sagt það úr þessum ræðustóli. Það er algert hneyksli að alþingismenn séu sviptir þeim stjórnarskrárvarða rétti sínum að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég spyr, virðulegur forseti: Hvað er næst? Hvað verður næst í þessum óskapnaði? Verða undirverktakar hjá Vegagerðinni næsta leyndarmál? Hvert verður næsta leyndarmál í þessu? Hvar enda þessi ósköp?

Virðulegi forseti. Alþingismenn eiga sitt ekki undir upplýsingalögum. Þau voru aldrei sett með því fororði að með þeim lögum væru alþingismenn sviptir stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að fá upplýsingar. Þetta er algert hneyksli, virðulegur forseti, og ég mótmæli þessu harðlega.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að hann ræddi ekki fundarstjórn forseta.)