Úrskurður forseta

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:34:02 (2289)

2001-12-03 15:34:02# 127. lþ. 41.93 fundur 190#B úrskurður forseta# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil af þessu gefna tilefni taka fram að ég hef ekki óskað eftir því að einstakir þingmenn skýri mér frá því um hvað þeir ætla að tala hér í ræðustól þegar þeir kveðja sér hljóðs um störf þingsins. Hv. þingmönnum er alveg frjálst að láta slíkar upplýsingar í té en það hefur engin áhrif á stjórn mína, nema ef hv. þingmenn óska eftir því að taka ekki til máls.

Í öðru lagi vil ég taka fram, eins og ég sagði áður, að þingsköp eru mjög skýr varðandi þá trúnaðarskyldu sem hvílir á utanrmn. og sambærileg ákvæði eru ekki um aðrar þingnefndir. (SJS: Það er alger þvæla að gagnálykta svona.) Ég skil nú ekki í hv. 3. þm. Norðurl. e. að tala um að þetta sé þvæla. Þetta eru skýr ákvæði í þingsköpum. (Gripið fram í.) Ég vil biðja hv. 3. þm. Norðurl. e. að róa skap sitt.