Atkvæðagreiðsla um innflutning á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:43:08 (2295)

2001-12-03 15:43:08# 127. lþ. 41.1 fundur 181#B atkvæðagreiðsla um innflutning á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Í nóvembermánuði stóð yfir atkvæðagreiðsla á vegum Landssambands kúabænda og Bændasamtakanna um hvort leyfa skyldi innflutning á fósturvísum úr norskum kúm. Þátttaka kúabænda var mjög góð og fyrir helgi var niðurstaða atkvæðagreiðslunnar birt. Hún alveg afdráttarlaus, en um 75% kúabænda höfnuðu innflutningi á norskum fósturvísum. Andstaðan er svo afgerandi að ljóst ætti að vera að öllum beiðnum um innflutning á norskum fósturvísum verði hafnað.

Herra forseti. Nú vill svo til að fyrir liggur umsókn Nautgriparæktarfélags Íslands um innflutning á norskum fósturvísum og telur formaður þess félags að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar auki enn frekar möguleika Nautgriparæktarfélagsins til innflutnings og þurfi þá ekki að eyða tíma í samanburðarrannsóknir.

Því spyr ég hæstv. landbrh.: Mun hann virða ákvörðun meiri hluta kúabænda og hafna alfarið innflutningi á norskum fósturvísum til kynblöndunar á íslenskum mjólkurkúm?