Málefni hælisleitandi flóttamanna

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 15:51:44 (2303)

2001-12-03 15:51:44# 127. lþ. 41.1 fundur 183#B málefni hælisleitandi flóttamanna# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég spyr félmrh. um aðkomu hans að málefnum hælisleitandi flóttamanna sem dvelja í landinu. Aðildarríkjum flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna ber að taka á sig skyldur og kostnað vegna flóttafólks en hér er vandræðagangur varðandi þennan hóp. Fjölskyldur sækja um hæli á Íslandi en margir mánuðir geta liðið þar til úrskurðað er. Á meðan er fjölskyldan réttindalaus og skilríkjalaus. Börnin eru réttindalaus.

Í dag er kastljósinu beint að 4--5 börnum á skólaaldri sem fá ekki kennslu. Þau eiga í raun ekki heima í landinu og eiga þess vegna engan rétt, þrátt fyrir að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveði á um rétt þeirra til skólagöngu.

Herra forseti. Í þessum málum er það þannig að þegar loks er úrskurðað og ef hælisvist er hafnað er oft ekki hægt að hjálpa fólki úr landi. Það er ekki ljóst hvert það eigi að fara. Það má ekki vera, það má ekki vinna, það á ekki heima í félagslega kerfinu en það er hér. Samningur dómsmrn. og Rauða krossins kveður á um að Rauði krossinn greiði uppihald fyrstu þrjá mánuðina. Síðan tekur dómsmrn. við og er það líklega einsdæmi að félagasamtök axli slíkar skyldur.

En ef fólkið fer ekki úr landi þrátt fyrir úrskurð greiðir dómsmrn. ekki lengur uppihald. Fjölskyldan getur ekki farið, hún getur ekki verið og eins og ég hef áður sagt, hún á engan rétt.

Þetta er ekki ásættanlegt fyrirkomulag og ég spyr hvernig aðkoma félmrn. sé að þessum málum og hvað félmrh. ætli að gera, m.a. varðandi kennslu barnanna sem er fyrir borð borin.