Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:08:22 (2311)

2001-12-03 16:08:22# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:08]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2000.

Eins og lýst er í bréfi því til Alþingis sem fylgdi skýrslunni hefur verið fylgt því fyrirkomulagi sem tekið var upp í skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1998 að birta í henni að meginstefnu til aðeins útdrætti vegna mála sem umboðsmaður hefur lokið með áliti eða bréfi og ákveðið að birta opinberlega. Er í bréfinu vakin sem fyrr athygli á því að álit umboðsmanns birtast nú ásamt útdrætti á heimasíðu hans jafnóðum og málunum er lokið. Í ræðu minni á síðasta löggjafarþingi við umræður um skýrslur umboðsmanns fyrir árin 1998 og 1999 benti ég á að þetta breytta fyrirkomulag mundi að líkindum auðvelda leit að úrlausnum umboðsmanns í einstökum viðfangsefnum og málaflokkum. Óhætt er að segja að þetta aukna aðgengi að úrlausnum umboðsmanns með auðveldum og skjótum hætti hefur á undanförnum missirum reynst mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðuna og þannig náð því markmiði að upplýsa bæði almenning og starfsfólk stjórnsýslunnar um þær lagareglur sem gilda í samskiptum þessara aðila og umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um.

Uppbygging og efnistök skýrslunnar eru að öðru leyti með hefðbundnu sniði. Er skýrslan í fimm köflum. Fyrsti kafli fjallar um störf umboðsmanns Alþingis og rekstur skrifstofu hans árið 2000. Í öðrum kafla eru töflur og tölfræðilegar upplýsingar um þau mál sem umboðsmaður kannaði á árinu svo og tölfræðilegar upplýsingar um áður afgreidd mál. Í þriðja kafla eru birtar niðurstöður og álit í málum sem afgreidd voru af kjörnum umboðsmanni, Tryggva Gunnarssyni, og þeim mönnum sem settir voru sem umboðsmenn í einstökum málum, og ástæða þótti til að gera sérstaka grein fyrir í skýrslunni. Í fjórða kafla er gerð grein fyrir framvindu mála sem fjallað er um í fyrri skýrslum umboðsmanns og loks hefur fimmti kafli að geyma skrár yfir atriðisorð og lagatilvitnanir.

Á árinu 2000 voru skráð 232 ný mál hjá umboðsmanni Alþingis og tók hann þrjú mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana sem bornar voru fram voru 229. Er þetta nokkur fækkun hlutfallslega frá árunum 1998 og 1999 og má draga hugsanlega þá ályktun af þessari þróun að áhrif skýrari löggjafar um málmeðferð stjórnsýslunnar, svo sem gildistaka stjórnsýslulaga 1. janúar 1994, og einnig aukin forvarnaáhrif með starfsemi umboðsmanns Alþingis séu farin að skila sér í nokkuð bættri stjórnsýslu þótt enn sé verk óunnið í þeim efnum.

Fram kemur í skýrslu umboðsmanns að helstu viðfangsefni hans á árinu 2000 hafi sem fyrr varðað almannatryggingar, málefni fanga og skatta og gjöld. Einnig er í skýrslunni gerð grein fyrir 14 málum er lutu að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Rétt er að benda á að í skýrslu sinni vekur umboðsmaður Alþingis athygli á því að samkvæmt lögunum um umboðsmann frá 1997 sé það hlutverk hans að gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög og ,,vandaða stjórnsýsluhætti``. Ekki sé í lögunum skýrt nánar hvað átt sé við með vönduðum stjórnsýsluháttum en ljóst sé að þarna sé verið að vísa til þess að stjórnsýslan eigi sjálf að gæta þess í störfum sínum að þar séu viðhafðir vandaðir stjórnsýsluhættir. Ljóst er að ekki er vanþörf á að leggja áherslu á þetta atriði. Þá segir í skýrslunni að það sé síðan umboðsmanns að hafa eftirlit með að gætt sé vandaðra stjórnsýsluhátta og þá einnig að móta frekar inntak þess hvað teljist í hverju tilviki vandaðir stjórnsýsluhættir. Er í þessu sambandi bent á nokkur mál í skýrslunni þar sem fjallað er nánar um þetta.

Gert er ráð fyrir því í lögunum um umboðsmann að umboðsmaður geti að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þá geti hann jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Vegna þessa legg ég á það áherslu að mikilvægt er að umboðsmaður Alþingis eigi þess kost að beita þessari heimild til frumkvæðisathugana, meðal annars með nauðsynlegum fjárveitingum, þannig að hann geti sinnt því eftirlitshlutverki gagnvart stjórnsýslunni sem Alþingi hefur falið honum. Þá verður að líta svo á að þetta frumkvæðiseftirlit sé vel til þess fallið að veita umboðsmanni Alþingis færi á því að stuðla að umbótum í stjórnsýslunni og þar með að rækja það hlutverk sem honum er falið með lögum, að tryggja réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Í þeirri skýrslu umboðsmanns Alþingis sem við ræðum hér er vikið að því að gerð heimasíðu fyrir embættið og sú mikla vinna sem starfsmenn embættisins þurftu að inna af hendi í því sambandi, svo og flutningur skrifstofunnar í nýtt húsnæði í Álftamýri 7 í Reykjavík, hafi orðið til þess að afgreiðsla mála hjá umboðsmanni dróst nokkuð á árunum 1998--2000. Fram kemur hins vegar að umboðsmaður Alþingis hefur nú sett sér það markmið að afgreiðslutími mála styttist nokkuð þannig að niðurstaða í málum sem sæta nánari athugun af hans hálfu liggi að jafnaði fyrir ekki síðar en sex mánuðum eftir að kvörtun berst. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. alþingismanna á því, sem bent er á í skýrslunni, að afgreiðslutími mála hjá umboðsmanni Alþingis markast að verulegu leyti af því hvernig stjórnvöld sem í hlut eiga hverju sinni bregðast við fyrirspurnum hans og beiðnum um skýringar í tilefni af tilteknum málum. Er því vel að umboðsmaður muni í samræmi við markmið sitt um styttingu afgreiðslutíma leggja á það aukna áherslu í störfum sínum að hlutaðeigandi stjórnvöld svari fyrirspurnarbréfum hans og beiðnum um afhendingu gagna eins fljótt og kostur er.

Að lokum vil ég sem fyrr þakka umboðsmanni Alþingis og starfsmönnum hans fyrir vel unnin og árangursrík störf á liðnu ári.