Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:43:22 (2315)

2001-12-03 16:43:22# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er að mörgu leyti dálítið sérstætt að þessi skýrsla skuli koma á dagskrá í dag. Ekki það að dagskráin hafi verið sett upp með sérstæðum hætti heldur féll í dag úr stóli hæstv. forseta Alþingis að mínu mati einhver sá versti úrskurður sem ég hef nokkru sinni heyrt á hinu háa Alþingi. Það er mjög sorglegt, virðulegi forseti, þegar málum er þannig háttað að alþingismenn á hinu háa Alþingi eru komnir í þá stöðu að vera sagt að þeim komi bara ekki fjárlög eða fjármunir ríkisins nokkurn skapaðan hlut við.

Málum hefur verið hagað þannig að réttur Alþingis, stjórnarskrárvarinn réttur Alþingis og alþingismanna, til þess að fá upplýsingar er fótum troðinn. Eftir að upplýsingalög hafa verið samþykkt þá er sí og æ vitnað í þau lög og vísað til þess að tiltekin málefni varði einkamálefni eða fjárhagsmálefni sem komi Alþingi bókstaflega ekkert við. En það vantar ekki, virðulegi forseti --- og mér þætti vænt um að hæstv. forseti sæi sér fært að sitja hér í salnum á meðan ég flyt mál mitt. (HBl: Má maður ekki standa? Það er gott hreyfa sig.) Forseti má hreyfa sig.

En, virðulegi forseti, það er mjög sérstætt að vinna undir þeim kringumstæðum að hæstv. forseti skuli í störfum sínum ganga svo undir framkvæmdarvaldið að það er nánast óþekkt í sögunni að málum skuli þannig háttað.

[16:45]

Það mál sem við ræddum áðan var þess eðlis að starfsmaður einkavæðingarnefndar sendi á faxi svar við erindi þar sem óskað var eftir því að fá upplýsingar um hvernig fjármunum ríkisins væri varið. Hann sagði að alþingismönnum kæmi það bara ekkert við, að þetta væri einkamál. Síðan hvenær er það einkamál þó að tiltekin fyrirtæki sendi ríkinu einhverja reikninga? Hvaða einkamál eru það? Þeir sem eiga viðskipti við ríkið vita að það er greitt af opinberu fé. Þeir vita að um það gilda reglur að Alþingi hafi eftirlit með þessu fé. Hví skyldu þeir ganga út frá því sem vísu að það sé eitthvað sérstakt leyndarmál hvað ríkið greiði þeim þegar þeir senda sína reikninga? (SJS: Hvað er að fela?) Já, von er að spurt sé. Hvað er að fela, virðulegi forseti?

Það er líka sérstakt, og ég nefndi það hér áðan, og spurning hvort það þjóni einhverjum tilgangi að ræða stofnun umboðsmanns Alþingis þegar fyrir liggur að Alþingi sjálft sem er skjöldur stofnunarinnar fær engar upplýsingar.

Hvaða svör halda hv. þingmenn að umboðsmaður Alþingis fái þegar hann spyr hið háa framkvæmdarvald --- ég held að rétt sé að orða það þannig eftir úrskurð hæstv. ráðherra, hið háa framkvæmdarvald --- og óskar eftir einhverjum upplýsingum? Ég held að fróðlegt verði að sjá þau svör í framtíðinni í ljósi þess úrskurðar sem hér féll í dag.

Ég vil ganga svo langt, virðulegi forseti, að segja að þetta hafi verið svartur dagur í sögu þingsins. Það var svartur dagur í sögu þingsins er menn hlustuðu á hæstv. forseta kveða upp úrskurð sinn í dag, algerlega órökstuddan með öllu og sorglegan í öllu falli.

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von þegar maður hlýðir á úrskurð á þessum degi þegar algerlega er gengist undir framkvæmdarvaldið að menn velti því fyrir sér hvort hv. forsn. hafi á sínum tíma haft manndóm í sér að senda Hæstarétti þetta bréf eða hvort skilaboðin hafi komið annars staðar frá.

Maður getur satt best að segja ekki ímyndað sér að forsn. hafi haft það frumkvæði að senda þetta í eigin nafni miðað við þann óskapnað sem við þurftum að hlýða hér á úr stóli forseta Alþingis fyrr í dag.

Til hvers var embætti umboðsmanns komið á laggirnar? Af hverju var það sett á fót? Það var til að veita einstaklingum skjól fyrir ríkisvaldinu þannig að þeir geti skotið málum sínum til umboðsmanns og fengið þar niðurstöðu á fljótvirkari hátt en fyrir dómstólum, skjótvirkar og ódýrar, fengið hana svo skjótt sem auðið væri. Umboðsmaður Alþingis er ekki dómstóll. Hann hefur ekkert vald til að framkvæma úrskurði sína. Þess vegna byggist áhrifavald hans, ef svo má að orði komast, fyrst og fremst á virðingu, á virðingu við embættið og virðingu fyrir því sem hann lætur frá sér fara.

Í öðru lagi er hlutverk umboðsmanns líka að tryggja að eftir lögum Alþingis sé farið, í raun að fylgja því eftir að vilji Alþingis birtist í niðurstöðum framkvæmdarvaldsins.

Það er ekki nema von, virðulegi forseti, þegar það liggur síðan hér fyrir að Alþingi sjálft fær engar upplýsingar, að manni þyki nú ekki líklegt að umboðsmaður fái þær sjálfur. Til eru líka fræg dæmi þar sem annars vegar hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson og hv. þm. Gunnar Birgisson --- því miður er hvorugur þeirra viðstaddur hér í dag og því kannski að einhverju leyti erfitt að fjalla um þá --- en þessir tveir hv. þm. hafa látið ýmislegt um þetta embætti falla og ýmislegt miður eða lítt rökstutt. Annar þeirra hélt því fram að úrskurðir umboðsmanns væru nánast algjört rugl og lítt sem ekkert var það rökstutt. Hinn taldi hausa, þar sem hann sagði að eitthvað af lögfræðingum í sínu ráðuneyti hefðu aðra skoðun og þar með væri þetta bara allt í lagi. Það er einmitt svona umræða sem er til þess fallin að grafa undan embætti umboðsmanns Alþingis.

Í mínum huga vegur svona umræða að rótum lýðræðisins vegna þess að allir tapa í þessu. Borgararnir tapa og stjórnvöld missa trú almennings. Það er einfaldlega þannig. Það er alveg svakalegt þegar svona er fyrir okkur komið.

Virðulegi forseti. Ég held að við verðum líka að fara yfir það af hverju við erum að veita stjórnvöldum aðhald. Er þetta eitthvað sem einhverjum datt bara í hug, eitthvað sem mönnum datt bara í hug hér í þinginu kannski á einhverju hraði, þ.e. að mönnum hafi bara dottið í hug að mikilvægt væri að Alþingi veitti stjórnvöldum aðhald og að mikilvægt væri að koma upp stofnun umboðsmanns Alþingis til að veita þetta aðhald? Þetta er ekkert sem neinum datt í hug á hlaupum. Langur aðdragandi var að þessu og það eru reynslurök, söguleg reynsla að mikilvægt er að þetta eftirlit sé gott.

Þess vegna var alveg svakalegt að hlýða á úrskurð hæstv. forseta í dag. Það er ekki nóg með að hann var einhver versta niðurstaða sem maður hefur heyrt, heldur jafnlítt rökstuddur og raun ber vitni sagði hann allt sem segja þarf um þann skjöld sem forsn. á að vera gagnvart hinu háa Alþingi, talsmaður hins háa Alþingis, hæstv. forseti.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að stofnun umboðsmanns Alþingis var mikið framfaraskref á sínum tíma og er fyrir löngu búið að sanna sig. Það er fyrst nú, virðulegi forseti, í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar og undir forsæti hæstv. núv. forseta Alþingis sem þessi umræða hefur breyst mikið. Hún hefur breyst mikið í þá veru að aldrei hefur verið gengið jafnhart undir framkvæmdarvaldinu, aldrei nokkurn tímann. Og það verður erfitt fyrir umboðsmann að starfa í þessu umhverfi, það er ekki nokkur spurning. Það verður erfitt fyrir umboðsmann að starfa í því umhverfi að umboðsmaður hefur ekki skjól af Alþingi og ráðherrar og alþingismenn tala um embættið með þeim hætti sem þeir hafa gert.

Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að það er mjög sérstætt að þessi umræða skuli einmitt fara fram í dag, að þannig hittist á að þetta er einhver svartasti dagur þingsins í samskiptum þingsins og framkvæmdarvaldsins, þar sem fax frá starfsmanni einkavæðingarnefndar var lesið upp á forsetastóli sem niðurstaða hæstv. forseta.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að fjölyrða frekar um þetta að sinni. Ég ítreka að dagurinn í dag er vondur dagur í sögu Alþingis.