Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 16:59:06 (2320)

2001-12-03 16:59:06# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Það verður að segjast eins og er að að sjálfsögðu gefur þessi skýrsla tilefni til að ræða þá hluti sem hafa gerst hér í þingsalnum í dag. Það er kannski spurning að hafa öll málin í utanrmn. þannig að hægt sé að ræða þau þar í trúnaði. Hins vegar er það alveg ofar mínum skilningi að mál geti ekki verið í trúnaði í nefndum. Ég er búin að starfa í mörgum nefndum, bæði hjá sveitarfélögum, hjá ríki og annar staðar. Ef ræða þarf um mál í trúnaði þá er það bara í trúnaði og allir kunna að virða slíkt. Hins vegar má svo aftur efast um það að opinberir fjármunir sem eiga að fara til verkefna eigi að vera í einhverjum trúnaði, þ.e. þegar verið er að ræða um opinbert fé. Það er önnur saga.

Hér er til umræðu hin gagnmerka og fína skýrsla umboðsmanns Alþingis sem hæstv. forseti hefur farið aðeins yfir hér. Hún er náttúrlega afar fróðleg aflestrar og hefur að geyma mjög miklar upplýsingar. Við vitum vel að skýrslan hefur mjög mikið að gera með réttaröryggi borgaranna til að ná sínum málum fram og fá rökstuðning gagnvart málum sínum gagnvart stjórnsýslunni og öðru. Þar af leiðandi er þetta gríðarlega mikilvæg stofnun.

[17:00]

Mig langar að benda þingmönnum á bls. 24 í þessari gagnmerku skýrslu þar sem fjallað er um hvaðan flest málin koma. Þegar þau eru flokkuð eftir viðfangsefnum þá eru starfshættir stjórnvalda með alstærstu málaflokkum, með 22% af þeim viðfangsefnum sem koma fyrir umboðsmann Alþingis. Hér er því líka að finna mjög fróðlega statistík. Kannski ekki skrýtið að flest málin varði dóms- og kirkjumrn., þar er stærsti þátturinn, enda kemur réttarstaða þar afar mikið við sögu.

Ég man eftir að í þeirri umræðu sem verið hefur um fjárlögin hefur verið beðið um viðbótarfjármuni fyrir þetta embætti til þess að gefa því tækifæri, t.d. til þess að vera með sjálfstæðar athuganir. Ég vil sýna þingmönnum þetta álit umboðsmanns sem gefið er út í sérstöku hefti, með rannsókn embættisins á réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum. Það er afar brýnt að einhver embætti skoði svona mál heildstætt. Það er einmitt mjög mikilvægt að ákveðnir fjármunir séu til slíkra verkefna.

Við þekkjum öll að það að vinna sjálfstætt að verkefnum og geta hafið sínar eigin rannsóknir er gríðarlega mikilvægt, þ.e. að umboðsmaður sé algjörlega óháður stjórnsýslunni og sé fyrst og fremst settur undir Alþingi.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði að umtalsefni ýmsar tillögur um umboðsmenn, hvort sem það er fyrir sjúklinga, fatlaða o.s.frv. Ég hef alltaf viljað tala um þá sem talsmenn, vegna þess að fyrir mér er í raun bara einn umboðsmaður og það er umboðsmaður Alþingis. Við erum með umboðsmann barna, sem er afar mikilvægt embætti líka, en sá fellur undir stjórnsýsluna. Það gerir umboðsmaður þingsins ekki. Við ættum í raun að breyta svolítið þessum hugsunarhætti því að við erum auðvitað að tala um talsmenn þessara hópa í ákveðnum málum. Það er afar mikilvægt að þeir séu til staðar.

Við sjáum líka mikinn fjölda mála hjá umboðsmanni og við megum líka búast við að þeim fjölgi, ekki síst vegna þeirra möguleika sem heimasíðan hefur í för með sér. Slíkt er náttúrlega afar gott.

En það hefur líka komið fram að málin eru meira af höfuðborgarsvæðinu en af landsbyggðinni. Það er kannski áhyggjuefni. Þá komum við kannski að því að ég man ekki betur en umboðsmaður sé með óskir um að kynna þessi mál á landsbyggðinni, bæði úti á landsbyggðinni og hér í stofnunum. Það er afmarkað verkefni, kannski til tveggja eða þriggja ára, og er afar brýnt að það sé kynnt sérstaklega.

Hér eru hins vegar örfá mál, kannski þrjú mál sem vöktu sérstaka athygli mína í bókinni, m.a. fangelsismálin. Ég vil endilega hvetja þingmenn til að kynna sér þennan sérbækling og eins fangelsismálin.

Við sjáum líka að auðvitað geta mál orðið heilmiklar tragedíur vegna meðferðar mála hjá stjórnsýslunni. Fólk fær ekki svör á réttum tíma, málin eru lengi í pípunum og þarf að fara mjög langa leið til að fá niðurstöður. Og við sjáum það t.d. í málefni á bls. 185 er varðar útlendinga. Þegar ég var búin að lesa um þau mál varð ég enn þá sannfærðari um mikilvægi þess að hafa sérstakan talsmann fyrir útlendinga. Þetta er að verða mjög flókinn málaflokkur. Við erum að fá ný lög, bæði um atvinnuréttindi og svo er að koma stór nýr lagabálkur. Umboðsmaður vinnur að sjálfsögðu mjög góða vinnu, það er ekki það. Ég held að það væri mjög gott ef þarna mundi skapast ákveðin sérhæfing. Mig langar því aðeins að undirstrika það og eins varðandi flóttamennina.

Mig langar að minnast á eitt mál undir kafla 3.0 Foreldrar og börn, er varðaði dómsmrn., um ættleiðingu á barni erlendis frá fyrir einstakling sem ekki var giftur. Nú er að vísu búið að breyta lögunum þannig að einstaklingar geta ættleitt börn erlendis frá og hérlendis svo fremi sem lögin í viðkomandi landi heimila slíkt. Í rauninni sjáum við þar ákveðnar oftúlkanir. Einmitt þetta mál hefur gengið mjög langt, hvað þá ef málið væri tekið upp aftur. Maður sér hins vegar í rauninni, og getur lesið á milli línanna, að þegar þetta mál er í pípunum þá er viðkomandi kona að komast á tíma hvað varðar aldur. Og það er náttúrlega alveg voðalegt þegar stjórnsýslan vinnur þannig, það verður bara að segjast alveg eins og er. Ég veit náttúrlega ekki hvað hefur gerst núna en þetta verður að hafa í huga þegar um ákveðna tímafaktora er að ræða í málum.

En þetta er afar gagnmerk skýrsla og ég vil endilega hvetja þingmenn til þess að kynna sér hana og þau málasvið sem fólk hefur sérstakan áhuga á. Embættið stuðlar m.a. að réttaröryggi borgaranna, þetta er þeirra aðgangur og afar mikilvægur og stuðlar líka að því að stjórnsýslan fari kannski að haga sér betur gagnvart nýjum lögum og nýjum tímum þannig að fólk fái skýr svör í sínum málum.