Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:14:33 (2322)

2001-12-03 17:14:33# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti ræða hv. þm. að mörgu leyti nokkuð góð, a.m.k. lengi vel eða þangað til kom að merku niðurlagi. Þar var reynt að túlka eða skýra orð mín með þeim hætti að því verður að svara.

Það sem ég sagði í ræðustól áðan var að ef stjórnvöld telja sig geta komið svona fram við Alþingi, þ.e. að túlka eftir hentugleik að hvaða upplýsingar sem er séu með þeim hætti að um sé að ræða leyndarmál, einkamálefni, fjárhagsmálefni o.s.frv., þá kviknar spurningin: Hvernig halda menn að þeir geti komið fram við umboðsmann Alþingis?

Þessi stefna er algerlega ný af nálinni. Menn hafa verið að beita fyrir sig upplýsingalögum. Upplýsingalög eiga ekki við um Alþingi, það kemur skýrt fram. Ef menn geta beitt fyrir sig þessum lögum í samskiptum við Alþingi, halda menn þá að þeir geti ekki beitt fyrir sig þessum lögum í samskiptum við umboðsmann Alþingis?

Ég ætla að bæta því við, af því að hv. þm. nefndi það að umboðsmanni Alþingis hafi aldrei verið neitað um upplýsingar, að umboðsmaður Alþingis kom fyrir allshn. Hann greindi frá því að oft og tíðum væri mjög örðugt að afla upplýsinga og tilgreindi m.a. í þeim tilvikum sérstök ráðuneyti sem ég ætla ekki að fjalla um hér. Þannig að það er mikilvægt að þetta liggi skýrt fyrir í þessari umræðu.

Þessi úrskurður sem féll í dag, sá mjög svo sérstæði úrskurður, er að mörgu leyti U-beygja í öllu að því er varðar stjórnsýslu og samskipti framkvæmdarvaldsins við Alþingi. Sú umræða sem verið hefur undanfarið er um að málin hafi þróast þveröfugt við þau markmið sem stefnt hefur verið að frá því embætti umboðsmanns Alþingis var sett á laggirnar.