Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 17:34:40 (2327)

2001-12-03 17:34:40# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Já, ég heyri það, herra forseti, og það hefur komið fram í fyrri andsvörum að hæstv. forseti hefur horfið frá að ræða þetta mál efnislega. Hann kemur hér og endurtekur sömu tugguna aftur og aftur, að það liggi ekki ljóst fyrir hvað menn séu óánægðir með í málflutningi hans og framgöngu. Það hefur legið algjörlega ljóst fyrir, öllum nema hv. 1. þm. Norðurl. e. sem af einhverjum undarlegum ástæðum er hættur að skilja íslenskt mál. Ég held að hver einasti ræðumaður sem um þetta hefur síðan fjallað, aðrir en hæstv. forseti sjálfur og e.t.v. einn stjórnarþingmaður, hafi lýst óánægju sinni með framgöngu forseta þegar hann hljóp til varnar framkvæmdarvaldinu og þóttist færa hér rök fyrir því að orðsending embættismannsins væri rétt og hún ætti að standa, að þinginu kæmi ekki við hvernig verja ætti þessum fjármunum. Hvernig í ósköpunum eigum við að tyggja þetta ofan í hæstv. forseta svo hann skilji það?

Við mótmælum harðlega þeirri afstöðu sem forseti tók. Við erum gáttuð á því að forseti þingsins, af öllum mönnum, skuli skjóta upp kollinum í vitlausu liði í stað þess að standa með þingmönnum og þinginu í baráttunni fyrir því að verja þennan helga rétt til upplýsinga sem næst á eftir málfrelsinu er þinginu kannski hvað mikilvægastur. Það er nú bara þannig. Nei, þá er hæstv. forseti allt í einu genginn í raðir hins liðsins og færir hér fram algjörlega óbrúklega röksemdafærslu fyrir því að svona eigi þetta að vera, að framkvæmdarvaldið sendi Alþingi orðsendingar um að það vanti 300 millj. hér eða 500 þar, en Alþingi komi að vísu ekki við hvernig eigi að verja peningunum, það sé einkamál. Einkamál hverra? Þessa embættismanns þá og þeirra sem þiggja síðan fjármunina? Er það hin tæra stjórnsýsla? Hver kaus þennan embættismann til að fara með opinbera fjármuni? Það er Alþingi sem hefur völdin í þessum efnum eða ætti að hafa þau.