Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:13:03 (2335)

2001-12-03 18:13:03# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram í dag hefur snúist um helgasta rétt þingmanna, þ.e. réttinn til upplýsinga. Það hefur verið eftirtektarvert, virðulegi forseti, að framsóknarmenn á hinu háa Alþingi hafa ekki treyst sér í þessa umræðu. Það hefur líka verið eftirtektarvert að forseti þingsins hefur að litlu leyti komið inn í þessa umræðu nema með undarlegum andsvörum sem erfitt hefur verið að átta sig á eða á hvaða vegferð hæstv. forseti hefur verið í þau skipti.

Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp og óska eftir að flytja aðra ræðu er fyrst og fremst sú mikla umræða sem fram hefur farið um upplýsingalögin og sú röksemdafærsla --- virðulegi forseti, ég hefði viljað hafa hæstv. forseta Alþingis hér. Ég er að reyna að eiga við hann orðastað og mér þætti vænt um ef hann sæi sér fært að ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti sér að hæstv. forseti Alþingis er í húsinu og hann mun sennilega hlýða á mál þingmannsins úr hliðarsal.)

Er það víst?

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun láta kanna það.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. Hér hefur líka verið gerð að umræðuefni orðsending úr forsrn., ég reyndar kallaði það fax en rétt var að þetta kom með tölvupósti og hafa skal það sem sannara reynist. En í þeirri umræðu, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað gert var við 300 millj. af opinberu fé, hefur verið vitnað til ákvæða upplýsingalaga í leit að rökum gegn því að þessar upplýsingar verði veittar. Því vil ég, virðulegi forseti --- og ég fagna því að hæstv. forseti er kominn í salinn --- vitna í greinargerð með frv. til upplýsingalaga frá 120. löggjafarþingi. Ég held að hæstv. forseti eigi að hlýða á það af því að hæstv. forseti hefur sí og æ vitnað til upplýsingalaga. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér upp:

,,Þannig taka lögin til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Utan gildissviðs þeirra fellur hins vegar Alþingi og stofnanir þess,`` segir í athugasemdum um 1. gr. upplýsingalaganna. Utan gildissviðs upplýsingalaga, virðulegi forseti, fellur Alþingi og stofnanir þess.

Þess vegna hefur verið mjög sérstætt að hlýða á hæstv. forseta Alþingis vitna sífellt til þessara laga þegar hann er að reyna að mæla því í mót að þingmenn eigi rétt á tilteknum upplýsingum. Það má heldur ekki gleyma því og verður aldrei of oft minnt á það að þessi réttur er í stjórnarskránni og stjórnarskráin stendur ofar hinum almennu lögum. Hún er að verða mjög sérstæð þessi endalausa barátta við framkvæmdarvaldið og við forseta Alþingis, um að þingmenn njóti þessa helga réttar.

Það hefur komið fram í umræðunni og kom fram fyrr í dag að þetta er er helgasti réttur þingmanna ásamt málfrelsinu, þ.e. rétturinn til upplýsinga. Ég spyr hæstv. forseta, Halldór Blöndal, ég sé hann þarna í hliðarsalnum og beini þeirri fyrirspurn til hans og bið hann að hlýða á: Hvernig eiga þingmenn að sinna þessari eftirlitsskyldu ef þeir fá ekki þær upplýsingar sem um er beðið? Menn bera fyrir sig svona hundalógík, eins og hæstv. forseti gerði úr forsetastól í dag. Hvernig á að sinna þessu eftirliti, sem er grundvallarhugmyndafræði að baki stjórnarskránni? Hvernig eiga hv. þingmenn að sinna þessum verkefnum sínum? Hvernig í veröldinni eiga þeir að sinna þessum verkefnum sínum ef þeir fá ekki upplýsingar? (GÁS: Viltu fá svör við þessu?) Ég ætlaði að beina þessari fyrirspurn til hæstv. forseta Alþingis sem situr hér í hliðarsal, um hvernig í veröldinni menn eigi að sinna þessu verkefni sínu. Það kemur kannski, virðulegi forseti, rafpóstur um það frá forsrn. um hvernig alþingismenn eigi að sinna þessu verkefni sínu. Það skyldi þó ekki verða svo. Það skyldi þó ekki verða svo, virðulegi forseti, að við fengjum rafpóst um það hvernig við eigum að sinna þessum stjórnarskrárbundnu verkefnum okkar.

Virðulegi forseti. Þessi umræða er orðin nokkuð löng og ströng og sjálfsagt að lýsa því yfir að henni er ekki lokið hér. Vitaskuld lýkur henni ekki fyrr en framkvæmdarvaldið og forseti Alþingis viðurkenna þennan rétt. Þessi hundalógík sem haldið hefur verið fram í nokkur ár verður aldrei samþykkt. Þá kannski lýkur þessari umræðu. En það hefur hins vegar komið skýrt fram, þrátt fyrir að almennt hafi verið talið að Alþingi sé æðst stofnana ríkisvaldsins, að ýmsir hafa aðrar hugmyndir uppi. Sumir virðast telja á valdi framkvæmdarvaldsins að túlka það hvað þinginu komi við og hvað ekki. Það er líka sérstætt að oddviti þingsins, hæstv. forseti Alþingis, skuli taka undir þessi sjónarmið. Því spyr ég forseta Alþingis aftur: Hvernig eiga þingmenn að sinna eftirlitsskyldu sinni ef þeir fá ekki þær upplýsingar sem um er beðið? Ég held að hæstv. forseti verði að svara þessari spurningu eða a.m.k. lýsa því yfir að hann bíði eftir því að það komi rafpóstur úr forsrn. til að hann geti svarað henni.