Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:41:47 (2340)

2001-12-03 18:41:47# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Maður áttar sig eiginlega ekki á því hvað hv. þm. gengur til. Nú veit hv. þm. að ef ekki er annað tekið fram gildir sú almenna regla um þær upplýsingar sem gefnar eru í þingnefndum að þingmönnum er frjálst að vitna til þeirra, endurtaka þær og fara með þær sem þeim sýnist. Þetta veit hv. þm. Það er því alveg ljóst að á venjulegum nefndarfundi í hinum ýmsu fagnefndum er ekki um neina þagnarskyldu að ræða.

Hins vegar eru um það skýr ákvæði í samþykktum forsætisnefndar að þingnefnd getur ákveðið að trúnaður skuli gilda um sérstakar upplýsingar og þar fram eftir götunum. Þetta veit hv. þm. (Gripið fram í.) Hann er órólegur, þingmaðurinn. (Gripið fram í.) Rólegur, rólegur, við erum ekki í Eyjum. Þetta veit þingmaðurinn allt saman og hann þarf ekki að vera svona órólegur.

Þetta er auðvitað vegna þess að þingmenn gera sér ljóst að stundum eru þau málefni lögð fyrir Alþingi sem ekki er gott eða hollt að fari út um víðan völl og þá getur það komið upp að trúnaðar sé þörf, bæði til að tryggja eðlilega framkvæmd mála og eins til að vernda einkahagsmuni og viðskiptahagsmuni og þar með hagsmuni ríkisins.