Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 18:48:05 (2347)

2001-12-03 18:48:05# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), EMS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[18:48]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá merk skýrsla frá umboðsmanni Alþingis. Ég var að sinna öðrum málum á skrifstofu minni þegar ég tók eftir því að hv. þm. Halldór Blöndal vék máli sínu, að því er mér heyrðist, að ummælum ýmissa annarra þingmanna um umboðsmann Alþingis sem teygðist síðan yfir í mál sem ég hafði bryddað upp á fyrr í dag.

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og biðja hæstv. forseta afsökunar á því að ég verð því miður að leiða umræðuna örlítið frá skýrslu umboðsmanns Alþingis en það er algerlega óhjákvæmilegt í framhaldi af ræðu hv. þm. Halldórs Blöndal.

Í ræðu hv. þm. kom m.a. fram að Ásta R. Jóhannesdóttir hefði hafið umræðu um störf þingsins og síðan hafi hv. þm., sem þá var starfandi hæstv. forseti, viljað gefa þeim sem hér stendur orðið en ég hefði beðið um gera það síðar. Þetta er alrangt hjá hv. þm. vegna þess að það var ekki Ásta R. Jóhannesdóttir sem hóf umræðuna heldur var það Margrét Frímannsdóttir. Í millitíðinni, áður en Ásta R. Jóhannesdóttir talaði, hafði hæstv. félmrh. talað. Þannig að í miðri umræðu um þau málefni sem þá voru til umfjöllunar vildi hæstv. forseti gefa mér orðið um allt annað mál sem hæstv. forseta átti að vera vel kunnugt um að væri á dagskrá þegar hinum málunum væri lokið. Eins og ég hef bent á áður er hefð fyrir því að þegar um slíkt er að ræða, að verið er að tala um störf þingsins og tvö mál eru undir, þá er yfirleitt lokið umræðu um annað málið áður en umræða um hitt málið hefst. Þetta ætti hæstv. forseti að þekkja, a.m.k. mun betur en ég.

En það kom ekki í ljós fyrr en síðar hver tilgangurinn var með því að reyna að gefa mér orðið í miðri umræðu, en ég mun ekki erfa það við hæstv. forseta heldur vil ég aðeins minna á þær hefðir sem hér hafa ríkt við slík tækifæri. Þetta var fyrra atriðið sem rangt var í máli hv. þm.

Hið seinna er í mínum huga öllu alvarlegra. Það er að vísu væntanlega vegna þess, og ég tek orð hv. þm. trúanleg um það, að hann hafi fengið rangar upplýsingar af fundum fjárln. Það er alrangt að ekki hafi verið beðið um ítarlegri upplýsingar frá forsrn. en áður höfðu borist. Það er skráð í fundargerðabók fjárln. sem ég lét kanna sérstaklega áður en ég kom hér upp í stólinn, að ég hafði óskað sérstaklega eftir því að forsrn. svaraði þeirri fyrirspurn að nýju vegna þess að fyrri svör ráðuneytisins væru ófullnægjandi.

Það er hins vegar rétt að þau svör sem ég gerði að umtalsefni í dag bárust eftir þann fund vegna þess að nefndin samþykkti þá beiðni mína að farið yrði aftur fram á ítarlegri svör frá ráðuneytinu. Þau svör sem ég gerði að umtalsefni í dag voru hin seinni svör frá ráðuneytinu. Þess vegna var að sjálfsögðu ekki haldinn fundur í fjárln. um þau svör því þau bárust, eins og hv. þm. benti á, eftir að búið var að afgreiða málið úr nefndinni, þ.e. fjárlagafrv. til 3. umr. Ég fór hins vegar fram á, svo ég endurtaki það, þar sem verið væri að afgreiða málið af meiri hluta nefndarinnar úr nefndinni, að við fengjum frekari svör um þetta áður en 3. umr. færi fram um fjárlagafrv. Því miður barst ófullnægjandi svar frá forsrn. sem ég gerði að umtalsefni í dag og óskaði, eins og kom fram réttilega hjá hv. þm., eftir liðsinni hæstv. forseta við að þinginu væri sýnd sú virðing sem það á skilið.

Því miður valdi hv. þm. aðra leið en að ganga í lið með mér í því að fá þær upplýsingar sem ég taldi nauðsynlegar. Í fyrsta lagi er afar hæpið að telja að um þær upplýsingar sem um er beðið eigi að ríkja þagnarskylda. En ef svo væri, og væri þá hægt að færa frekari rök fyrir því en koma fram í þessu snubbótta svari frá forsrn., þá benti ég einnig á það í máli mínu að til væru reglur um að þingnefndir ættu að gæta trúnaðar, og þó það nú væri, ef óskað væri eftir því. Það eru reglur sem forsn. sjálf setti á grundvelli 28. gr. laga um þingsköp. Hv. þm. fór hins vegar í svari sínu ekki svo langt að minnast á 28. gr. og enn síður minntist hv. þm., hæstv. forseti þá, á að til væru sérstakar reglur sem fjölluðu um meðferð erinda til þingnefnda. Að því gefna tilefni, herra forseti, tel ég rétt að lesa hluta af þeirri reglu. Þetta er 4. gr. reglnanna sem fjallar um þetta og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þingnefnd getur ákveðið, að ósk sendanda erindis eða að eigin frumkvæði, að farið skuli með erindi að öllu leyti eða að hluta sem trúnaðarmál.``

Ég veit ekki hvort þetta þarf að vera miklu skýrara til að allir hv. þm. átti sig á því hvað hér er sagt. Hér er það ósköp einfaldlega sagt að auðvitað geti nefndum þingsins borist erindi sem eðlilegt er að halda trúnað um og litið sé á það sem trúnaðarmál. Síðan er í greininni fjallað ítarlega um hvernig með slíkt skuli farið. En af hverju er þessi regla sett? Er það einhver tilviljun að hún var sett? Ekki aldeilis.

Þegar þetta lagafrv. var lagt fram er um það getið sérstaklega í greinargerð. Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta, að í reglum forseta Alþingis skuli m.a. kveðið á um aðgang annarra en nefndarmanna að gögnum sem nefndum berast. Það er auðvitað eðlilegt þess vegna að settar séu um það sérstakar reglur. Þær eru hér mjög skýrar og mjög eðlilegt þar af leiðandi að nefndir fái að sjálfsögðu, og ég tala nú ekki um fjárln., upplýsingar um það þegar eitt ráðuneyti biður um óútfylltan tékka upp á 300 millj. Það er auðvitað lágmarkskurteisi við þingið að svara slíkum fyrirspurnum þannig að ekki sé verið að fela hlutina að því er manni sýnist á óeðlilegan hátt.

Það er eðlilegt að menn spyrji: Hvað er þá verið að fela? Hvað er það sem verið er að fela? Við höfum áður fengið þau svör frá forsrn. hvaða stofnanir og fyrirtæki það væru sem kæmu við þennan lið. Það virðist alveg augljóst mál að þetta er ákveðið lögfræðifyrirtæki í London sem fær megnið af þessum upphæðum. Það blasir við vegna þess að við það fyrirtæki hefur verið gengið til samninga án þess að það færi í útboð. Og hvaða trúnaður er það í raun og veru, ef við veltum því fyrir okkur, sem þarf að sýna þessu lögfræðifyrirtæki í London um hvað það fái borgað, einhverja ákveðna upphæð, vegna verka sem það hefur unnið?

Auðvitað á þetta að liggja allt saman ljóst fyrir. Þess vegna er algerlega óskiljanlegt í fyrsta lagi að forsrn. skuli láta sér detta í hug að þeim upplýsingum eigi að halda leyndum, í fyrsta lagi fyrir alþjóð, að ég tali ekki um fjárln. þingsins. Það er að sjálfsögðu enn þá óskiljanlegra að hæstv. forseti skuli síðan taka undir slíkt þegar þingmaður óskar eftir liðsinni forseta til að fá sjálfsagðar upplýsingar. Ég var að vona, herra forseti, að hér væri einhver misskilningur á ferðum og af þeim sökum sendi forsrn. ekki slíkar upplýsingar til okkar eða að forsrn. vissi ekki um þær reglur sem gilda um störf þingnefnda, að það er að sjálfsögðu hægt að upplýsa þær um trúnaðarmál og óska eftir að nefndarmenn haldi trúnað. Ég trúi því ekki að dæmi séu um að þingnefndir hafi brotið slíkan trúnað. Því trúi ég ekki. Ef svo er, þá væri fróðlegt að fá um það upplýsingar.

Herra forseti. Það er ljóst að þetta mál hefur, að því er mér skilst, skyggt of mikið á hina merku skýrslu umboðsmanns Alþingis. Herra forseti. Það er ekki við mig að sakast í þeim efnum. Ég fór þá einu leið sem ég taldi mér færa og hóf umræðu um störf þingsins, eins og margoft hefur komið fram í máli mínu, og óskaði eingöngu eftir liðsinni forseta við að við gætum á morgun fjallað við eðlilegar kringumstæður um fjáraukalög þessa árs. Því miður virðist ýmislegt benda til að það verði ekki og þá verði væntanlega að halda að einhverju leyti áfram umræðunni þá, ef ekki verður búið að leysa úr þessu máli.

Hins vegar er óhætt að upplýsa að ég hef átt viðræður við hv. formann fjárln. um málið og hvaða lausnir hægt er að finna á því til að fá þessar upplýsingar. En ég verð að segja, herra forseti, að þau ummæli sem ég heyrði frá hv. 1. þm. Norðurl. e., í kjölfar þeirra viðræðna sem ég átti við hv. formann fjárln., voru þess eðlis að ég veit ekki hvort ég er í raun reiðubúinn til að fara þá leið sem við ræddum á þeim fundi, af þeirri einföldu ástæðu að ef eitthvað var, þá var bætt hér í málið. Ég hélt að hv. þm. væri búinn að fá þær upplýsingar sem hefðu átt að duga til þess að hægt hefði verið að finna lausn á málinu á annan hátt en þann að menn væru að munnhöggvast um málið í þingsal, ég segi, herra forseti, um svo sjálfsagt mál sem það er að fjárln. geti fengið upplýsingar um hvernig forsrn. gerir ráð fyrir því að fara með þær 300 millj. sem óskað er eftir að fá vegna einkavæðingaráforma.

Herra forseti. Því miður virðist sú skoðun uppi hjá sumum hv. þm. að fjárln. komi það hreinlega ekki við. Þá hlýtur maður auðvitað að spyrja sig þeirrar spurningar: Hvar eru mörkin? Hvað kemur fjárln. yfir höfuð þá við af þeim fjárveitingum sem verið er að fjalla um í nefndinni?

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið að sinni og vona að þetta muni upplýsast allt saman þannig að við getum á morgun hafið 3. umr. um fjáraukalög ársins við eðlilegar kringumstæður.