Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 19:03:20 (2353)

2001-12-03 19:03:20# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), JB
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2000 og það er alveg ljóst á þeim málum sem þar er gerð grein fyrir að starf umboðsmanns er afar mikilvægt og gegnir veigamiklu hlutverki í því að tryggja eðlilega og rétta stjórnsýslu og rétt einstaklingsins gagnvart bæði framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslu almennt. Þetta starf og verkefni umboðsmanns Alþingis er þeim mun mikilvægara sem bæði framkvæmdarvald hins opinbera, hvort sem það er af hálfu ríkis eða annarra, er stöðugt að ganga harðar fram og að líta æ stærra á rétt sinn og er þar af leiðandi líka ganga á rétt hins lýðræðislega kosna valds, m.a. þings sem hefur það hlutverk einmitt að fylgja því eftir að misrétti sé ekki beitt.

Herra forseti. Þetta snertir einnig málið sem hér hefur verið mjög um rætt nú síðast, þ.e. einmitt þann málatilbúnað, erindi og svör sem hafa komið við erindi fjárln. til forsrn. um að svara því til hvernig ætlunin sé að verja þeim 300 millj. kr. sem sótt er um á fjáraukalögum til þess að standa straum af kostnaði vegna einkavæðingarverkefna. Eftir ítrekun, herra forseti, kemur svar frá forsrn. einmitt um þetta mál á þann veg að því miður sé ekki hægt að verða við því að gefa sundurliðað svar um það hvernig þessum einkavæðingarpeningum er varið og vísað er þar til 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, þar sem segir að skylt sé að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum. Má ég vitna í þetta bréf sem kemur frá forsrn., með leyfi forseta:

,,Upplýsingar um endurgjald til einstakra viðsemjenda varða mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra. Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, er skylt að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum, ef hann er til þess fallinn að skaða þá hagsmuni, sem í húfi eru. Í því felst þá jafnframt að slíkar upplýsingar eru undirorpnar þagnarskyldu af hálfu stjórnvalda að viðlagðri ábyrgð. Á þeim grundvelli hefur ráðuneytið jafnframt heitið viðsemjendum sínum að gæta trúnaðar við meðferð þeirra. Þar eð sambærileg þagnarskylda hvílir ekki á þingmönnum eða þingnefndum telur ráðuneytið því ekki fært að veita nánari upplýsingar um það hvernig framangeind fjárhæð skiptist milli einstakra viðsemjenda.``

Herra forseti. Með þessum úrskurði er forsrn. í rauninni að vísa því frá að hér sé ...

(Forseti (GuðjG): Forseti vill minna á að skýrsla umboðsmanns Alþingis er hér til umræðu.)

Ég er að koma að því, virðulegi forseti. Með þessu er forsrn. að vísa til þess að svörin eru flokkuð undir það að þingmenn séu ekki að spyrja í nafni þingsins heldur sem einstaklingar. Það er einmitt vísað til upplýsingalaganna og þá er þetta, herra forseti, orðin stjórnvaldsaðgerð sem ber að fara að eftir þeim lögum sem lúta að stjórnvaldsaðgerðum. Þá, herra forseti, komum við einmitt inn á verksvið umboðsmanns Alþingis því að sú grein sem vitnað er til þarna fjallar um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er að leynt fari.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að það er ansi hart ef þingmenn þurfa að leita undir væng upplýsingalaga og umboðsmanns Alþingis eins og þarna er verið að vísa til í svari forsrn. til þess að geta sótt rétt sinn sem er fullkomlega alrangt að mínu mati að gera. Þarna er verið að segja að þingmenn séu bara eins og hver annar almenningur varðandi þessi mál og verði að sækja mál sín þannig gagnvart stjórnvöldum, en þá yrði líka stjórnvaldið að lúta þeim lögum með andmælarétti o.s.frv. Það væri því ýmislegt hægt að flokka undir verkefni umboðsmanns Alþingis ef þetta mál á að falla undir þau eins og forsrn. er að segja í bréfi sínu.

Á því vildi ég bara vekja athygli, herra forseti, varðandi meðhöndlun þessa máls að einmitt er verið að draga málið inn á vettvang umboðsmanns Alþingis í svörum forsrn.

Að öðru leyti skal ég síðan vera mjög stuttorður um það sem eftir er. Ég verð, herra forseti, af því að hv. 1. þm. Norðurl. e. vék í ræðu sinni að störfum mínum sem fjárlaganefndarmanni, að fá að segja örfá orð um það.

Svara frá forsrn. um einkavæðingarfjármagnið var krafist af fjárln. Gerður var fyrirvari um það við afgreiðslu málsins úr fjárln. að minni hlutinn vildi fá þessi svör áður en máli yrði afgreitt. Hv. 1. þm. Norðurl. e. benti á að nál. 1. og 2. minni hluta væru ekki komin fram. Það er alveg hárrétt að þau eru ekki komin fram. En þau eru væntanleg. Ein ástæða þess er einmitt sú að verið er að bíða eftir því að þetta skili sér eins og um var beðið, þessi ítarlegu svör.

Varðandi síðan umræðuna að öðru leyti og umræðuna um þingsköp, herra forseti, þá er ég ekki þingreyndur og verð að segja það af hreinni og einskærri einlægni að í upphafi þegar þetta mál kom fyrir undir liðnum athugasemdir um störf þingsins var mönnum í lófa lagið að kanna hvernig málið væri vaxið en ekki að kveða upp þann mikla úrskurð sem var kveðinn upp hér í morgun.

Ég vil að lokum, herra forseti, fá að vitna í bækling sem heitir Háttvirtur þingmaður, bls. 14 þar sem er verið að fjalla um störf forseta Alþingis, með leyfi forseta:

,,Forseti Alþingis tekur ekki þátt í almennum umræðum samkvæmt þingsköpum og á að jafnaði ekki orðastað við þingmenn í þingsalnum.``

Herra forseti. Ég tel að þegar mál þetta var til umfjöllunar fyrr í dag hafi hæstv. forseti einmitt verið að fjalla um málið með beinum hætti. Hann hefði átt að mínu viti og eftir mínum einlæga skilningi á því hvernig eigi að vinna átt að taka málið til skoðunar í forsn. og kveða síðan upp úrskurð sinn.

Herra forseti. Ég vona að það takist að skýra mál betur þannig að mál þingmanna, þingsins og einstakra þingnefnda þurfi ekki að reka fyrir umboðsmanni Alþingis.