Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000

Mánudaginn 03. desember 2001, kl. 19:15:50 (2356)

2001-12-03 19:15:50# 127. lþ. 41.5 fundur 178#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2000# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 127. lþ.

[19:15]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé nauðsynlegt að fara dýpra ofan í þetta mál. Ég sagði í dag að ég vissi ekki betur en fjárln. hefði fengið þær upplýsingar sem hún teldi nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana, sem var eðlilegt þar sem búið var að skila nefndaráliti. Hvernig átti mér þess vegna að detta annað í hug?

Ég gekk eftir því og ég spurði hvort minni hlutinn ætlaði að skila nefndaráliti. Mér skilst að það hafi ekki verið bókað á fundi nefndarinnar, ekki veit ég til þess. Ég hef þá spurt ógreinilega ef það hefur verið gert. En það er góður siður í þingnefndum, ef skila á minnihlutaáliti, að þeir hv. nefndarmenn sem það vilja gera láti þess getið þegar mál er afgreitt úr þingnefnd. Það er áratuga ef ekki aldavenja á Alþingi að gera það. Ég veit auðvitað ekki hvernig þetta er nú en þetta var svo meðan ég starfaði í nefndum.

Ég vil í annan stað segja: Hvað er rangt í því sem ég sagði þegar ég sagði að ekki væru nein ákvæði í þingsköpum um þagnarskyldu annarra nefnda sambærileg við þau sem eru um utanrmn.? Hvað var rangt í því? Hvernig getur hv. þm. komið hér upp þrásinnis og haldið því fram að ég hafi kallað það úrskurð og sagt þar eitthvað rangt? Hvernig getur hv. þm. gert það?

(Forseti (GuðjG): Enn er ástæða til að minna á að hér er á dagskrá skýrsla umboðsmanns Alþingis.)