Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:49:33 (2372)

2001-12-04 13:49:33# 127. lþ. 42.96 fundur 197#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það er upplýst að tekið hefur verið hænufet í rétta átt í því deilumáli sem vaknaði eðlilega hér á þingfundi í gær. Ég vil hins vegar láta það koma skýrt fram, herra forseti, að þetta er mér ekki nægilegt. Ég sit ekki í fjárln. en hafði hins vegar í hyggju að taka hér þátt í umræðu og, eins og gefur að skilja, afgreiðslu fjáraukalaganna. Þær upplýsingar sem leitað hefur verið eftir eru hluti þeirra gagna og þeirra tillagna sem fyrir liggja.

Þannig árétta ég þá ósk til handa formanni fjárln. að hann geri í inngangsræðu sinni glögga grein fyrir ráðstöfun þessara fjármuna því að ég vænti þess að stærstum hluta þessara 300 milljóna sé þegar búið að ráðstafa --- og greiða hugsanlega --- og að hann fari ekki undan í flæmingi eins og gert hefur verið í málinu fram að þessu heldur geri þingheimi glögga grein fyrir ráðstöfun þessara fjármuna. Það veit auðvitað hver einasti maður að hér eru ekki á ferðinni nein viðskiptaleyndarmál. Hvernig gæti það verið? Hér er einfaldlega um það að ræða að greiða lögaðilum fyrir þá þjónustu sem þeir hafa veitt framkvæmdarvaldinu og hvað er eðlilegra en að það sé upplýst með hvaða hætti þessi þjónusta var veitt, fyrir hvað var greitt og hversu hátt hverjum og einum?

Því árétta ég það, herra forseti, að þetta mál er hreint ekki þannig vaxið að það þurfi að sveipa það neinni hulu, binda það neinum trúnaði við einn eða neinn, og ég ítreka óskir um að hér verði þessu álitaefni svarað þráðbeint og án vífilengja.