Aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 13:51:20 (2373)

2001-12-04 13:51:20# 127. lþ. 42.96 fundur 197#B aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í gær var hv. þingheimi skýrt frá því að forsrn. hefði hafnað því að veita umbeðnar upplýsingar. Hæstv. forseti tók undir þau sjónarmið og sagði að ekki væri hægt að veita þessar upplýsingar af því að það væri ekki sami trúnaður í fjárln. eins og er í utanrmn.

Nú virðist sem forsrn. hafi lýst því yfir að hægt væri að veita þessar upplýsingar í trúnaði þrátt fyrir úrskurð forseta Alþingis hér í gær. Og niðurstaðan er þá sú að þrátt fyrir úrskurð forseta þingsins tekur forsrn. fram fyrir hendurnar á honum og afhendir upplýsingar sem ekki mátti veita í gær.

Virðulegi forseti, þetta mál er vægast sagt orðið heldur snúið. Og ég verð að segja það og taka undir með þeim, auðvitað er fráleitt og fáránlegt að upplýsingar eins og þessar séu afhentar í einhverjum trúnaði. Það er algerlega fráleitt. Og ef einstaka embættismenn geta svipt þingmenn rétti til upplýsinga með því að veita einhverjum viðskiptaaðilum loforð um að trúnaður verði haldinn gagnvart einhverjum upplýsingum er mjög mikilvægt að þingið taki þetta sérstaklega til umræðu því það er algjörlega fráleitt og ég mótmæli því algjörlega, virðulegi forseti. Að minnsta kosti sá er hér stendur á ekki sæti í fjárln. og því dugar þetta mér engan veginn og ég mótmæli því alveg harðlega að svona upplýsingar séu veittar í trúnaði.