Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 14:30:31 (2391)

2001-12-04 14:30:31# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hér eru auðvitað fullkomin endaskipti á hlutunum. Það er fjárln. sem eðlilega óskar eftir sundurliðun á þessum fjármunum. Embættismenn í forsrn. geta ekki búið til áskilnað um að nefndin verði bundin trúnaði um málið. Það er auðvitað fjarri lagi. Ég spyr því og gagnálykta: Hefði nefndin engar upplýsingar fengið frá forsrn. hefði hún ekki undirgengist trúnaðarskilyrðin? Er hv. þm. að segja það?

Ég spyr líka, af því hann svaraði því áðan í öðru andsvari að hann hefði fengið vitneskju um þetta áður en skuldbindingin átti sér stað: Vissi hann ekki og veit hann kannski ekki enn þá hvernig þessi skipting átti sér stað, í trúnaði eður ei? Það er auðvitað grafalvarlegt mál að koma hér fyrir þingheim og biðja um 300 millj. kr. í verkefni af þessum toga og vita hvorki haus né hala á því sem á ferðinni er.

Ég hlýt að árétta ósk mína, herra forseti, og beini þeim orðum til forseta ekki síður en annarra, að við fáum þessar upplýsingar hér upp á borð. Þar til við fáum þær eru undirmál á ferðinni.