Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 14:31:52 (2392)

2001-12-04 14:31:52# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég neyðist til að taka það enn einu sinni skýrt fram að í erindi fjárln. var ekki óskað eftir því að þetta mál væri sent okkur í trúnaði. Okkur kom hins vegar saman um það að ef sendandi, í samræmi við reglur þingsins, óskaði eftir slíkum trúnaði, þá væri sjálfsagt að verða við því og við mundum ekki bregðast því.

Tilraunir hv. þm. til þess að gera fjárln., þingið og forsrn. tortryggilegt með því að varpa hér inn orðum eins og ,,undirmál`` og öðrum af því tagi, snerta mig ekki því þau eru fjarri þeim sannleika sem þetta mál snýst um. Hérna hefur verið reynt að leysa með lagni og á grunni reglna þingsins þau mál sem komið hafa upp í dag. Ég held að hv. þm. ætti að fagna því að til þess hefur verið gerð tilraun og að þingið fái þær upplýsingar sem um hefur verið beðið.