Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 14:33:01 (2393)

2001-12-04 14:33:01# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla svo sannarlega að vona að fjárln. hafi gert ráðuneytum og muni gera ráðuneytum það algerlega ljóst að með þessu sé ekki fallist á það fordæmi með neinum hætti að upplýsingar af þessu tagi eigi leynt að fara. Það eiga þær ekki. Þetta eru opinber málefni og það þarf að reka ofan í kokið á forsrn., alla leið.

Þó mætti segja að í kúvendingu forsrn. frá því í gær sé fólgin viðurkenning á því að afstaðan sem embættismaður ráðuneytisins tók á tölvumiðanum fræga í gær var fráleit og aumkunarverðastur verður náttúrlega hlutur forseta þingsins, Halldórs Blöndals, sem hljóp til varnar þeirri vitleysu í gær sem forsrn. hefur núna dregið til baka.

Mergurinn málsins er sá að Alþingi má undir engum kringumstæðum fallast á að verið sé að gefa fordæmi um að upplýsingar af þessu tagi eigi að fara leynt. Þetta er ráðstöfun opinberra fjármuna og það á að vera opinbert mál.