Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 15:54:49 (2414)

2001-12-04 15:54:49# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi harma ég það ef hv. þm. Kristján L. Möller hefur ekki heyrt ræðu mína en er samt farinn að vitna í hana en ég rakti einmitt rökin sem hafa komið fram fyrir sölu veitunnar og ég vitnaði til bæjarfulltrúans Snorra Styrkárssonar þar sem hann rakti að það væri ekki óskastaða að selja rafveituna heldur rakti hvernig erfið fjárhagsstaða sveitarfélagsins rekur til þess arna. Og að sjálfsögðu ber sveitarfélaginu skylda til að leysa úr því eins og best verður á kosið.

Hins vegar er það sveitarfélaginu ekki til góðs til frambúðar að eignir séu teknar af því til að láta ganga upp í rekstrarskuldir, skuldir sem eru m.a. til komnar vegna óhagstæðrar skiptingar á tekjum milli ríkis og sveitarfélaga, vegna skulda við félagslega íbúðakerfið o.s.frv., sem er vandi miklu fleiri sveitarfélaga en Skagafjarðar og á að taka á honum heildstætt. Og það er mesti misskilningur hjá hv. þm. að lagt sé til að þetta verði leyst með því að leggja út þessar 300 milljónir heldur er gert ráð fyrir því að vandamál þessa sveitarfélags verði leyst um leið og annarra. Þarna er bráður vandi sem ber að taka á þegar í stað. Það er skylda ríkisins að gera það og við leggjum það til en ekki að gengið verði að einstökum sveitarfélögum eða þau knúin til að selja dýrmætar eignir sínar þegar aðrar leiðir eru miklu réttlátari og miklu sanngjarnari og koma sveitarfélaginu miklu betur, bæði til skemmri og lengri tíma.