Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:45:43 (2419)

2001-12-04 16:45:43# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. fjmrh. rökstyddi svarið við seinni spurningunni. Á hverju eru þær líkur byggðar? Er hægt að upplýsa eitthvað um að líklegt sé að kaupandi sé að finnast að Landssímanum? Ganga þeir hlutir þá svo hratt fyrir sig að greiðsla verði komin inn um áramót eða er litið svo á að ef búið er að undirrita einhverja pappíra þó að engir peningar hafi komið eigi að bókfæra söluhagnaðinn á þessu ári þó að hann kannski borgist einhvern tímann og einhvern tímann? (Gripið fram í.) Já, ég tel það samt sem áður a.m.k. alveg ljóst, herra forseti, að það eru ekki fjármunir sem muni greiðast inn í ríkissjóð og það er þá orðið svona bókfærsluatriði. Ég skildi það náttúrlega svo að menn reiknuðu með þessum tekjum í kassann á þessu ári og þannig var auðvitað lagt upp með málið. (Fjmrh.: Nei, þetta er rekstrar...) Já, já, það er auðvitað ljóst að þetta er á rekstrargrunni.

Engu að síður, herra forseti, kæmi það manni mjög á óvart ef málið gengi saman á þeim örfáu virku dögum sem til stefnu eru fram að hátíðunum. Að vísu eru fræg dæmin um að menn hafi skrifað undir hluti á gamlársdag til að geta bókfært söluhagnaðinn og líklega er nú það frægasta og illræmdasta þegar svo mikið lá á að selja SR-mjöl að það var drifið af. Mig minnir að það hafi verið á gamlársdag eða 30. desember, og vinnubrögðin voru eins og raun ber vitni. Það var einmitt til þess að geta látið bókhaldið líta betur út. Og þá finnst mér leggjast lítið fyrir kappann, hæstv. fjmrh., ef þetta er farið að snúast um svoleiðis leik.

Varðandi fyrra atriðið, herra forseti, um að með þessu sé verið að virða gjafabréfið finnst mér það ekki vera. Ég tel að það sé á afar miklum bláþræði að leggja það sem Garðyrkjuskólinn er að sýsla með að jöfnu við rannsóknir í þágu skógræktar. Án þess að ég ætli á nokkurn hátt að kasta rýrð á það ágæta starf sem unnið er hjá Garðyrkjuskólanum eru bara grunnrannsóknir í skógrækt ekki vistaðar þar, hvorki í landnýtingu né skógrækt. Þær eru annars staðar, og þar af leiðandi tel ég þetta mjög hæpna túlkun.