Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:55:21 (2425)

2001-12-04 16:55:21# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi eru viðræður flokkanna þriggja um mögulegt samstarf á næsta kjörtímabili ekki á vegum R-listans. Þær eru í raun og veru algerlega sjálfstæðar og honum óviðkomandi sem slíkar. Þær viðræður sem eru í gangi eru milli flokkanna þriggja hér, Framsfl., Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þetta eru viðræður flokkanna og eru ekki í neinum skipulagslegum tengslum við núverandi R-lista sem varð til á öðrum grunni eins og kunnugt er.

Reykjavíkurborg er auðvitað mjög sterkt og öflugt sveitarfélag með miklar tekjur og ég held að það sé ekki nokkur minnsta ástæða til að óttast að borgin sjálf sem og einstök fyrirtæki hennar ráði ekki við allar skuldbindingar sínar. Satt best að segja held ég að enginn hafi neinar áhyggjur af því, og yfirleitt gildir um þessi sterku sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að þau eru tiltölulega mjög vel á vegi stödd borið saman við sveitarfélög á landsbyggðinni. Þar eru meðaltekjur lægri, þar hefur fólki fækkað og ýmislegt fleira hefur orðið mönnum mótdrægt og valdið þeim erfiðleikum og þeirri skuldasöfnun sem þar er auðvitað stórfellt vandamál. Í raun og veru er staða þeirra alls ekki sambærileg við stöðu sveitarfélaganna hér á þessu svæði.