Fjáraukalög 2001

Þriðjudaginn 04. desember 2001, kl. 16:56:44 (2426)

2001-12-04 16:56:44# 127. lþ. 42.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv. 127/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Steingríms Sigfússonar og varð þess skyndilega áskynja að ég gleymdi að fá leyfi hjá honum sem þingmanni til að koma í ræðustól og ræða aðeins um þessi mál.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar þessi ofboðslegi skapofsi braust fram hjá formanni Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs --- og mér fannst ég allt í einu sjá hérna sama hrokagikkinn og talaði í Hrísey þegar ég álpaðist til að mæta þar á borgarafund (Gripið fram í.) sem sveitarstjórn Hríseyjar boðaði til þar (Gripið fram í.) og eins og hv. þm. orðaði það --- hann skildi ekkert hvað þingmenn úr öðrum sóknum væru að gera í Hrísey. Þetta rifjaðist allt upp fyrir mér áðan.

Herra forseti. Ég vildi líka spyrja hv. þm. --- vegna þess að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er að leggjast gegn því að sjálfsákvörðunarréttur sveitarstjórnar Skagafjarðar um að selja eignir sínar verði virtur þótt ekki verði tekin ákvörðun á Alþingi um það: Hver er munurinn á þessari sölu nú eða þegar Siglfirðingar seldu rafveitu og hitaveitu? Herra forseti, samgrh. í þeirri ríkisstjórn hét nefnilega Steingrímur Sigfússon. Og Steingrímur Sigfússon, sá hv. þm. sem hér situr nú, tók þátt í að samþykkja í lánsfjárlögum heimild um að Rafmagnsveitur ríkisins keyptu rafveitu og hitaveitu Siglufjarðar.

Herra forseti. Að vísu eru liðin 10 ár, og mikið hefur breyst á þeim tíma, en óneitanlega kemur upp í huga manns tækifærismennska og skopparakringluháttur. Hver er munurinn, herra forseti, á þessum gerningi fyrir 10 árum og þeim sem verið er að gera nú í næsta byggðarlagi?